Innlent

Sigurður sagði lögreglumanni að hann hefði stungið Annþór með sprautunál

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Annþór Kristján Karlsson í dómssal í héraðsdómi í ótengdu máli.
Annþór Kristján Karlsson í dómssal í héraðsdómi í ótengdu máli. Vísir/GVA

Sigurður Hólm Sigurðsson sagði lögreglumanni þann 3. apríl 2012 að þeir Annþór Kristján Karlsson og Börkur Birgisson hefðu reynt að kúga sig til að brjótast inn fyrir þá. 

Lögreglumaðurinn skrifaði upplýsingaskýrslu um þessa frásögn Sigurðar þann 23. maí 2012 en Sigurður lést í klefa sínum á Litla-Hrauni þann 17. maí sama ár. Er þeim Annþóri og Berki gefið að sök að hafa ráðist á Sigurð með þeim afleiðingum að hann lést.

Börkur yfirgefur Héraðsdóm Suðurlands í morgun. Hann heldur á miða sem á stendur: „Hvenær drepur maður mann, og hvenær drepur maður ekki mann?“Vísir

Höfðu aldrei séð skýrsluna

Þegar kalla átti lögreglumanninn til sem vitni kom í ljós að verjendur hefðu aldrei séð umrædda upplýsingaskýrslu fyrr. Dómurinn hafði hana hins vegar undir höndum þar sem hún er hluti af gögnum málsins en fyrir mistök fengu verjendur hana ekki. 

Þeir mótmæltu því að lögreglumaðurinn kæmi fyrir dóminn og sögðu umrædda skýrslu ekki hafa neitt gildi fyrir málið. Dómari féllst engu að síður á að kalla lögreglumanninn til og sagði hann frá því sem fram hefði farið á milli hans og Sigurðar þarna í apríl 2012.

„Ég spurði hann hvort að Annþór og Börkur hefðu reynt að kúga hann til að brjótast inn fyrir sig. Sigurður sagði að þeir hefðu gert það og að hann hefði þá hótað að stinga þá með sýktri sprautunál. Svo sagði hann að hann hefði stungið Annþór með nálinni og eftir það hefðu þeir látið hann í friði. Ég fékk hann reyndar ekki til að segja mér hvort að nálin hefði í raun verið sýkt,“ sagði lögreglumaðurinn.

Hólmgeir Elías Flosason er verjandi Annþórs Karlssonar.Mynd/versus

Sammála að um haugalygi væri að ræða

Hólmgeir Elías Flosason, verjandi Annþórs, spurði lögreglumanninn hvers vegna hann hefði spurt Sigurð út í Annþór og Börk. 

Lögreglumaðurinn svaraði því til að það væri ekkert sem stoppaði hann í því að ræða um brotamenn. Hólmgeir spurði þá hvers vegna hann hefði sérstaklega rætt þá og sagði lögreglumaðurinn þá að hann hefði fengið upplýsingar um að Annþór og Börkur hefðu verið að kúga menn til þess að brjótast inn fyrir sig.

Verjandinn spurði hann þá, í ljósi þess að Sigurður hafi verið að játa á sig mjög alvarlega líkamsárás, hvers vegna lögreglan hann hefði ekki hafið frumkvæðisrannsókn á málinu. Lögreglumaðurinn svaraði því þá til að hann vissi ekki annað en að Annþór væri á lífi og að hann hefði þá getað kært málið ef þetta hefði gerst.

Aðspurður kvaðst lögreglumaðurinn ekki hafa getið lagt mat á hvort Sigurður væri að segja satt og sagðist einfaldlega ekki vita hvort hann væri að segja satt eða ekki.

Bæði Annþór og Börkur gáfu aftur skýrslu vegna þessarar frásagnar lögreglumannsins. Það er skemmst frá því að segja að báðir sögðu þetta haugalygi og sagði Annþór að ef hann hefði verið stunginn með sprautunál sem hann héldi að væri sýkt þá hefði hann samstundis leitað á bráðamóttökuna. Það hefði hann hins vegar aldrei gert.  


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×