Dregið verður í riðla fyrir lokakeppni Evrópumóts kvenna í fótbolta í dag. Drátturinn hefst í Luxor-leikhúsinu í Rotterdam klukkan 16.30 en lokakeppnin fer fram í Hollandi á næsta ári og stendur yfir frá 16. júlí til 6. ágúst.
Stelpurnar okkar verða í pottinum í Rotterdam í dag en þær tryggðu sig inn á þriðja Evrópumótið í röð með því að sigra í riðli 1 í undankeppninni. Þar fór íslenska liðið á kostum og fékk ekki á sig mark fyrir en í lokaleiknum gegn Skotlandi.
Ísland fór fyrst á EM í Finnlandi 2009 en komst þar ekki upp úr riðli. Liðið tók eitt skref áfram á EM 2013 í Svíþjóð þar sem stelpurnar okkar komust upp úr riðli en fengu svo skell gegn heimakonum í átta liða úrslitunum.
Á þessu tólfta Evrópumóti kvenna verða í fyrsta sinn 16 lið. Því verða fjórir fjögurra liða riðlar eins og voru hjá körlunum þar til í ár en liðum á karlamótinu var fjölgað í 24 fyrir mótið í Frakklandi í sumar.
Stelpurnar okkar eru í þriðja styrkleikaflokki með Ítalíu, Skotlandi og Danmörku og geta því ekki mætt þeim í riðlakeppninni.
Ísland var með bæði Þýskalandi og Noregi í riðli á EM 2009 og EM 2013 og er möguleiki á að það gerist aftur. Evrópumeistarar Þýskalands eru í efsta styrkleikaflokki og Noregur í öðrum ásamt Svíþjóð.
Fylgst verður með drættinum í beinni á Vísi í dag.
Styrkleikaflokkarnir:
Pottur 1: Þýskaland (10. mótið, átta sinnum meistarar), Holland (2. mótið, gestgjafar), Frakkland (6. mótið, best komist í átta liða úrslit), England (8. mótið, silfur tvisvar sinnum)
Pottur 2: Noregur (11. mótið, tvisvar sinnum meistarar), Svíþjóð (10. mótið, einu sini meistarar), Spánn (3. mótið, undanúrslit einu sinni), Sviss (nýliðar)
Pottur 3: Ítalía (11. mótið, silfur tvisvar sinnum), Ísland (3. mótið, átta liða úrslit einu sinni), Skotland (Nýliðar), Danmörk (9. mótið, undanúrslit tvisvar sinnum)
Pottur 4: Austurríki (Nýliðar), Belgía (Nýliðar), Rússland (5. mótið, tvisvar sinnum í átta liða úrslit), Portúgal (Nýliðar)
