Skoðun

Er forseti yfir það hafinn?

Halla Tómasdóttir skrifar
Mikilvægur þáttur í ákvörðun minni um að bjóða mig fram til embættis forseta var löngun mín til að gera gagn. Forseti er í þjónustu þjóðarinnar og á að vinna í hennar þágu. Það vakti því undrun mína að heyra forsetaframbjóðanda halda því fram í fyrsta samtali allra frambjóðenda á RÚV að hann teldi að forseti ætti að vera yfir það hafinn að styðja við einkafyrirtæki.

Að mínu mati á forseti ekki að vera yfir það hafinn að styðja gott fólk til góðra verka. Hvorki samlanda sína né aðrar manneskjur. Forseti á ekki að telja eftir sér að styðja við fólkið í landinu: íþróttafólk, listamenn, fræðimenn, frumkvöðla og forystufólk sem vinnur samfélaginu gagn. Forseti á að styðja við menntun, náttúruvernd, landgræðslu, hugverk og handverk, menningu og listsköpun. Forseti á einnig að styðja við íslenskt atvinnulíf. Atvinnulíf er ekki og má ekki vera skammaryrði. Heilbrigt atvinnulíf er grunnur verðmætasköpunar og útflutningstekna og forsenda atvinnusköpunar. Atvinnulífið skapar einstaklingum atvinnu og fjölskyldum lífsviðurværi. Ferðaþjónustan sem hefur reynst drjúg búbót á síðari árum er hluti af atvinnulífinu, sem og ýmis menningartengd frumkvöðlastarfsemi.

Forseti getur opnað dyr tækifæra fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Það eru fjölmargir Íslendingar sem notið hafa góðs af þeim tækifærum sem fulltingi forseta hefur skapað þeim á erlendum vettvangi. Handverk, listir, líftækni, hugbúnaðargerð að ógleymdri ferðaþjónustunni eru meðal þeirra geira sem hafa notið góðs af slíkum tækifærum.

Í þágu heildarinnar

Það er þó ekki sama hvernig forseti beitir sér í þágu þjóðarinnar eða fyrir hönd einkafyrirtækja. Það er til dæmis ekki í lagi að forseti njóti sérstakra fríðinda vegna þeirrar aðstoðar sem hann veitir fyrirtækjum. Það er ekki í lagi að forseti njóti persónulegs ávinnings, hvort sem er í formi greiðslna eða annarra hlunninda. Sú aðstoð sem forseti veitir fyrirtækjum verður að vera í þágu heildarinnar og eiga sér stað á grunni góðs siðferðis. Þá þarf að gæta jafnræðis og koma í veg fyrir að hagsmunatengsl myndist. Gagnsæi verður að vera í fyrirrúmi og setja á embættinu siðareglur.

Ég tel reyndar furðulegt að forsetaembættinu hafi ekki verið settar siðareglur. Reglur sem ykju gagnsæi og kæmu í veg fyrir hagsmunaárekstra. Það er mun skynsamlegra en sú aðferð að flokka viðfangsefni eftir hentisemi og draga í dilka eftir því hvort um er að ræða opinberan geira eða einkageira, bókmenntir eða hugbúnaðargerð.

Forseta ber að beita sér í þágu lands og þjóðar. Opna tækifæri fyrir einstaklinga og fyrirtæki sem vinna á heilbrigðan og skynsaman máta að verðmætasköpun, landi og þjóð til gagns. Reynsla skiptir máli, ég hef fjölbreytta og verðmæta reynslu sem getur nýst þjóðinni vel. Á starfsferli mínum hef ég byggt upp víðtækt alþjóðlegt tengslanet sem ég mun svo sannarlega nýta til að leggja fólki lið og opna þannig dyr í þágu Íslands. Forseti getur ekki verið hafinn yfir fólkið í landinu og verkefni þeirra, forseti á að vinna fyrir þjóðina. Forseti á að gera gagn, þannig forseti vil ég vera.

Þessi grein birtist fyrst í Fréttablaðinu.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×