Maður sem hefur játað að hafa stungið félaga sinn í bakið með hníf við Sæmundargötu í Reykjavík aðfaranótt sunnudags er laus úr gæsluvarðhaldi.
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu fór fram á áframhaldandi gæsluvarðhald yfir manninum á grundvelli almannahagsmuna en Héraðsdómur Reykjavíkur hafnaði þeirri kröfu.
Að sögn Árna Þórs Sigmundssonar, aðstoðaryfirlögregluþjóns, hefur lögreglan kært úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar en ekki liggur fyrir hvenær hann mun kveða upp dóm vegna málsins.
Málavextir eru þeir að aðfaranótt sunnudags var lögregla kölluð að stúdentagörðum við Sæmundargötu. Þá hafði annar mannanna stungið hinn í bakið með hníf. Nokkur vitni voru að árásinni en enginn annar er grunaður um þátttöku í henni. Öll lykilvitni hafa verið yfirheyrð og þá er hnífurinn sem beitt var í vörslu lögreglu.
Manninum sem fyrir árásinni varð er enn haldið sofandi í öndunarvél, samkvæmt upplýsingum frá Landspítalanum.
