Fótbolti

Hannes Þór hefur ekki spilað síðan í október en er í rugluðu formi

Tómas Þór Þórðarson skrifar
Hannes Þór hefur bætt líkamlegt ástand sitt gífurlega.
Hannes Þór hefur bætt líkamlegt ástand sitt gífurlega. mynd/twitter/
Hannes Þór Halldórsson, landsliðsmarkvörður í fótbolta, er í brjáluðu formi þrátt fyrir að hafa ekki spilað leik síðan í byrjun október þegar hann meiddist með íslenska landsliðinu.

Björn Bragi Arnarsson, skemmtikraftur og góðvinur Hannesar, birti tvær myndir á Twitter-síðu sinni af markverðinum sem sýna hversu trylltu formi Hannes er í þessa dagana.

Sjá einnig:Alltaf svo sáttur í eigin skinni

Hannes Þór var í miklu stuði í byrjun tímabils en hann spilaði átta fyrstu leiki hollensku úrvalsdeildarinnar með NEC Nijmegen. Hann var á tímabili búinn að halda hreinu í fjórum deildarleikjum í röð og í heildina sex leikjum með einum bikarleik og einum landsleik.

Hannes Þór varð svo fyrir því óláni að fara úr axlarlið á landsliðsæfingu eftir leik gegn Lettlandi og hefur verið frá keppni síðan.

Í viðtali við Fótbolti.net sagðist Hannes vera orðinn 100 prósent klár og vonast til að verða valinn í hópinn fyrir vináttuleikina gegn Dönum og Grikkjum í lok mánaðar.

Það mun reynast Hannesi erfitt að endurheimta sæti sitt í liði NEC, en hollenska liðið fékk Brad Jones, fyrrverandi markvörð Liverpool, til liðs við sig til að fylla í skarð íslenska landsliðsmarkvarðarins.

NEC er í sjöunda sæti hollensku úrvalsdeildarinnar og er búið að fá á sig 29 mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×