Erlent

Obama heimsótti Hiroshima

Samúel Karl Ólason skrifar
Obama hitti eftirlifendur sprengjunnar í Hiroshima.
Obama hitti eftirlifendur sprengjunnar í Hiroshima. Vísir/AFP
Barack Obama varð í dag fyrsti sitjandi forseti Bandaríkjanna til þess að heimsækja Hiroshima í Japan. Það er borgina sem að fyrstu kjarnorkusprengjunni var varpað á þann 6. ágúst 1945, en um 140 þúsund manns höfðu látið lífið vegna sprengjunnar við árslok. Forsetinn lagði blómakrans við minnisvarða og hitti eftirlifendur frá Hiroshima.

Kapphlaupið um kjarnorkusprengjuna.Vísir/GraphicNews
Obama hafði gefið út fyrir heimsóknina að hann myndi ekki biðjast afsökunar fyrir hönd Bandaríkjanna, sem vörpuðu einnig kjarnorkusprengju á Nagasaki þann 9. ágúst. Sex dögum síðast gáfust stjórnvöld Japan upp og seinni heimsstyrjöldinni lauk.

Flestir Bandaríkjamenn telja að það hafi verið nauðsynlegt að varpa sprengjunum til að þvinga Japani til uppgjafar. Það hafi bjargað fjölmörgum mannslífum þar sem innrás var ekki nauðsynleg.

Samkvæmt Reuters eru sagnfræðingar ekki endilega sammála því mati og Japanir sjálfir telja að notkun kjarnorkusprengja hafi verið óréttlætanleg.

Þeir sem lifðu sprengjuna af segja að afsökunarbeiðni hefði verið kærkomin. Hins vegar forgangsatriðið að losa heiminn við kjarnorkuvopn. Ekki voru þó allir sammála um það.

„Ég vil að Obama biðjist afsökunar,“ sagði hinn 73 ára gamli Eiji Hattori. „Þá linni þjáningu minni mögulega.“ Hattori var einungis ungabarn þegar sprengjan féll, en hann er nú með þrjár mismunandi tegundir krabbameins.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×