Samkvæmt heimildum blaðsins tengist rannsókn lögreglu á aðkomu þessara tveggja manna aðallega því hvort þeir hafi komið að flutningi á líki Guðmundar Einarssonar. Guðmundur hvarf árið 1974 og hefur ekki spurst til hans síðan. Árið 1980 var þó maður sakfelldur fyrir að hafa flutt líkið á Guðmundi Einarssyni. Hann dró aldrei framburð sinn tilbaka.
Sjá einnig: Ábending í Guðmundar- og Geirfinnsmáli ekki glæný
Líkamsleifar Guðmundar fundust aldrei en björgunarsveitir og lögregla leituðu hans um nokkra hríð þar til ákveðið var að hætta leit.

Kunningi þegar játað á sig líkflutning
Þeir játuðu á sig glæpinn eftir nokkra daga í gæsluvarðhaldi, Sævar 10 dögum eftir handtöku og Tryggvi Rúnar 15 dögum eftir handtöku. Kristján Viðar viðurkenndi nokkrum dögum eftir handtöku að hafa verið á Hamarsbraut 11 þar sem átök hafi orðið en greint er frá þessum átökum í dómi Hæstaréttar sem finna má á vef Ríkislögreglustjóra.
Grundvallaratriði í málinu varðar líkflutning þar sem Erla sagðist upphaflega hafa séð Sævar, Kristján Viðar og Tryggva Rúnar flytja lík í laki úr kjallaraíbúð sem hún bjó þá í ásamt Sævari. Síðar var Albert Klahn Skaftason nefndur í tengslum við líkflutning. Hann játaði við fyrstu skýrslutöku.
Sjá einnig: Guðmundar- og Geirfinnsmálið: Tveir menn handteknir og yfirheyrðir
Líkið fannst þó aldrei sem fyrr segir.
Sævar og Tryggvi drógu játningar sínar tilbaka á vormánuðum 1977. Kristján Viðar dró sinn framburð tilbaka í september 1977. Erla dró hins vegar sinn framburð aldrei tilbaka, ekki fyrr en við endurupptökubeiðni málsins árið 1997.

Albert Klahn, sem viðurkenndi að hafa tengst flutningi á líki Guðmundar, hélt sig við sinn framburð við meðferð málsins en hann sagðist hafa flutt líkið frá Hamarsbraut út í Hafnarfjarðarhraun og síðar síðla sumars 1974 flutt það þaðan. Ekki er upplýst hvert. Hann var sakfelldur.
Við endurupptökubeiðni árið 1997 sagðist hann ekki muna hvort hann hefði komið að Hamarsbraut þar sem átökin áttu sér stað.
RÚV greindi frá því í morgun að mennirnir tveir sem handteknir voru í morgun hefðu áður komið við sögu lögreglu. Þá þekktu þau aðilana sem dæmdir voru í málinu 1980.
Endurupptökunefnd skoðar málið nú og ákveður síðar á árinu hvort tilefni sé til að taka málið upp að nýju.