Innlent

Illugi leggur áherslu á að RÚV virði hlutleysisskyldu sína

Samúel Karl Ólason skrifar
Frá undirrituninni. F.v. Illugi Gunnarsson, Karitas H. Gunnarsdóttir, Guðlaugur G. Sverrisson, Ásta Magnúsdóttir og Magnús Geir Þórðarson.
Frá undirrituninni. F.v. Illugi Gunnarsson, Karitas H. Gunnarsdóttir, Guðlaugur G. Sverrisson, Ásta Magnúsdóttir og Magnús Geir Þórðarson.
Samningur mennta- og menningarmálaráðuneytis og Ríkisútvarpsins um fjölmiðlaþjónustu í almannaþágu var undirritaður í morgun. Samkvæmt tilkynningu er gert ráð fyrir því að minnst níu prósent af heildartekjum félagsins verði útvistað til efnisframleiðslu innlends leikins efnis hjá sjálfstætt starfandi framleiðendum.

Heildarverðmæti leikins efnis verður því tæpar 650 milljónir króna á fyrsta árinu.

„Þetta fyrirkomulag mun tryggja gæði framleidds efnis með því að nýta kosti samkeppninnar meðal sjálfstætt starfandi framleiðenda, enda er áskilið að efnisval fari fram með faglegum og gagnsæjum hætti. Ríkisútvarpið mun í þessu skyni efna til samstarfs við Kvikmyndamiðstöð Íslands og sjálfstæða framleiðendur,“ segir í tilkynningunni.

Þá eru börn sögð vera í forgrunni í samningnum. Þá er tekið fram þar að allt efni sem ætlað sé börnum og ungmennum sé óhlutdrægt og sé óháð stjórnmálalegum, hugmyndafræðilegum og efnahagslegum hagsmunum.

Í þjónustusamningnum er kveðið á um að Ríkisútvarpið skuli á gildistíma samningsins leggja aukna áherslu á innlenda dagskrárgerð og að færa menningarefni framar í forgangsröðun í dagskrá.

„Með þessu getur Ríkisútvarpið skapað sér aukna sérstöðu á fjölmiðlamarkaði, en á sama tíma er kveðið skýrt á um að félagið skuli gæta sérstaklega að samkeppnissjónarmiðum í starfsemi sinni. Í þjónustusamningnum er einnig kveðið á um að sjónvarpsefni frá Norðurlöndum verði að lágmarki 7,5% af útsendu efni, en hlutfall sjónvarpsefnis á enskri tungu skal dragast saman um að minnsta kosti 5% á samningstímanum.“

Þá segir í tilkynningunni að leggja eigi áherslu á að tryggja eftir fremsta megni fagleg vinnubrögð og að innra eftirlit og gæðaferlar séu virkir. Ríkisútvarpið setji sér reglur um innra eftirlit og gæðamál.

„Í þágu gæða og fagmennsku er einnig gert ráð fyrir að starfsfólk Ríkisútvarpsins starfi eftir siðareglum og að fréttareglur fréttastofu verði uppfærðar. Jafnframt er kveðið sérstaklega á um hlutleysisskyldu fréttastofu og að ólík sjónarmið komi fram.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×