Erlent

Trump myndi skera á flæði fjár til Mexíkó

Samúel Karl Ólason skrifar
Donald Trump.
Donald Trump. Vísir/EPA
Donald Trump, forsetaframbjóðandi Repúblikana, segir að hann muni skera á peningasendingar frá Bandaríkjunum til Mexíkó. Þannig myndi hann neyða yfirvöld í Mexíkó til að borga fyrir byggingu veggs við landamæri ríkjanna.

Með öðrum orðum vill hann koma í veg fyrir að innflytjendur sendi peninga til fjölskyldna sinna í Mexíkó.

Þetta skrifaði Trump í minnisblaði til Washington Post. Þetta er í fyrsta sinn sem hann fer ítarlega yfir hvernig hann myndi fjármagna byggingu veggsins. en tillögurnar hafa vakið miklar deilur.

Í minnisblaði Trump segir að bannið yrði afnumið ef Mexíkó myndi borga Bandaríkjunum fimm til tíu milljarða dala. Þá fjármuni ætti svo að nota til að reisa vegginn.

Ekki er ljóst hvort að Trump gæti komið í veg fyrir peningaflæðið sem forseti en ljóst er að það yrði mjög alvarlegt fyrir efnahag Mexíkó.

Samkvæmt Seðlabanka Mexíkó voru um 25 milljarðar dala fluttir frá Bandaríkjunum til Mexíkó í fyrra. Trump telur að meirihluti þeirrar upphæðar sé frá ólöglegum innflytjendum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×