Yfirvöld á Bahama-eyjum hafa gefið út tilmæli til ferðalanga á leið til Bandaríkjanna vegna árása lögreglu gegn þeldökkum.
„Utanríkisráðuneytið hefur orðið vart við aukna spennu í sumum borgum Bandaríkjanna þar sem ungir, þeldökkir karlmenn voru felldir af lögreglumönnum,“ segir í tilkynningu frá ráðuneytinu.
Í tilkynningunni eru ferðalangar beðnir um að hafa varann á þegar þeir ferðast til Bandaríkjanna. Þá er þeim tilmælum beint til þeirra að passa sig sérstaklega í þeim borgum þar sem skotárásirnar hafa átt sér stað.
„Sérstaklega biðjum við unga karlmenn um að sýna sérstaka varúð í umræddum borgum í samskiptum sínum við lögreglu. Fylgið fyrirmælum og verið samvinnuþýðir.“
Tilkynningin var gefin út í kjölfar þess að tveir svartir menn, Alton Sterling og Philand Castile, voru skotnir til bana af lögreglumönnum í Minnesota og Baton Rouge. Vegna dauða þeirra skaut maður í Dallas fimm lögreglumenn til bana.
