Erlent

Hefja útgáfu afrísks vegabréfs handa öllum íbúum

Jóhann Óli Eiðsson skrifar
Fyrstu vegabréfin verða gefin út til þjóðarleiðtoga ríkjanna á fundinum í Kigali.
Fyrstu vegabréfin verða gefin út til þjóðarleiðtoga ríkjanna á fundinum í Kigali. vísir/epa
Afríkusambandið stefnir að útgáfu rafræns vegabréfs fyrir íbúa ríkjanna sem mynda sambandið. Vegabréfinu verður ýtt úr vör á fundi aðildarríkjanna í Kigali, höfuðborg Rúanda, í komandi viku.

Afríkusambandinu var komið á fót árið 2002 en öll 54 ríki Afríku, sem njóta alþjóðlegrar viðurkenningar, eru aðilar að því. Verkefnið er liður í Agenda 2063, fimmtíu ára stefnu sambandins. Litið er á það sem algeran hornstein í því markmiði sambandsins að Afríka sé ein heild.

Fyrstu vegabréfin verða gefin út til þjóðarleiðtoga ríkjanna á fundinum í Kigali. Stefnt er að því að hver einasti íbúi álfunnar eigi sitt vegabréf að tveimur árum liðnum.

Í framtíðinni er stefnt að innri markaði Afríkuríkja. Mikil vinna er þó framundan við að útfæra hvernig hann skuli virka auk þess að óttast er að valdabarátta geti haft letjandi áhrif við að koma honum á fót.

Að mati Alþjóðlega endurreisnar- og þróunarbankans munu flestar þjóðir Afríku ná „milliinnkomu“, að hver einstaklingur þéni yfir 1.000 dollara á ári, árið 2025. Verg „álfuframleiðsa“ er sem stendur 2,4 billjón dollarar en áætlað er að hún muni tólffaldast á næstu þremur áratugum.


Tengdar fréttir

Afríkusambandið styrkir íslenskt jarðhitaverkefni

Íslenska fyrirtækið Reykjavik Geothermal og Afríkusambandið undirrita í dag samning um styrk til jarðhitaborana í Eþíópíu á alþjóðlegum fundi styrktaraðila jarðhitaþróunar í Austur Afríku sem haldinn verður í Reykjavík.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×