Innlent

Mest aukning í ofbeldisbrotum

Jón Hákon Halldórsson og Þórgnýr Einar Albertsson skrifa
Lögreglan lagði hald á mikið magn af E-pillum á árinu.
Lögreglan lagði hald á mikið magn af E-pillum á árinu. vísir/Ernir
Skráðum hegningarlagabrotum fjölgaði um tæplega 20 prósent á höfuðborgarsvæðinu á árinu 2015. Þetta kemur fram í skýrslunni Afbrot á höfuðborgarsvæðinu 2015 sem birt var í gær. Þetta er í tíunda sinn sem skýrslan er gefin út í þessari mynd.

Umferðarlagabrotum fjölgaði einnig, en skráð umferðarlagabrot voru 28.665 á árinu. Það er 21 prósent fleiri brot en skráð voru að meðaltali síðustu þrjú ár á undan.

Af hegningarlagabrotum fjölgaði ofbeldisbrotum hlutfallslega mest á milli ára, eða um 35 prósent. Fjölgunin árið 2015 er að mestu tilkomin vegna aukningar á minniháttar líkamsárásum, en nýtt verklag lögreglu í heimilisofbeldismálum tók formlega gildi 12. janúar 2015. Þetta nýja verklag skýrir þessa fjölgun.

Gríðarleg aukning varð í haldlagningu á E-pillum. Alls var um 24 sinnum meira magn af slíkum haldlagt árið 2015 en árið 2014. Sömuleiðis var lagt hald á um sex sinnum meira magn af amfetamíni og kókaíni.

Einnig bar á því að innbrotum fjölgaði. Tilkynnt var um 21 prósent fleiri innbrot en árið 2014 og bárust flestar tilkynningar á milli klukkan 16 og 19 á föstudögum og laugardögum.

Fréttin birtist fyrst í Fréttablaðinu




Fleiri fréttir

Sjá meira


×