Innlent

Tekist á þegar svissneska predikaranum var sparkað út af Glerártorgi

Oddur Ævar Gunnarsson skrifar
Svissneska predikaranum Símoni var hent út úr verslunarmiðstöðinni Glerártorgi á Akureyri í dag. Símon stóð þar og predikaði fyrir viðskiptavini Glerártorgs um mikilvægar lífsvenjur og skilyrði þess að hljóta náð og miskunn Guðs.

Símon er orðinn Íslendingum vel kunnugur en fyrstu fréttir af manninum bárust í október síðastliðnum þar sem hann var staddur ásamt Angelu Cummings fyrir utan Menntaskólann í Hamrahlíð á Kvennó-MH deginum svokallaða en þar boðuðu þau krökkunum fagnaðarerindi sitt og vöruðu þau við þvi að líferni þeirra gæti skapað þeim eilífðar vítisvist. Parið elti nemendur síðan á Klambratún þar sem þau voru fjarlægð af lögreglu.

Næst fréttist af Símoni á norðanverðum Vestfjörðum þar sem hann stillti sér meðal annars upp í Olís-búðinni í Bolungarvík, gekk um götur Hnífsdals þar sem hann hrópaði á Hnífsdælinga að þeir væru á leið til helvítis og seinast þar sem hann stóð fyrir framan Menntaskólann á Ísafirði og varaði vegfarendur við kynvillu og kynlífi fyrir hjónaband.

Nú er Símon mættur til Akureyrar í sömu erindagjörðum en öryggisgæsla Glerártorgs fjarlægði manninn eins og sjá má í meðfylgjandi myndbandi sem blaðamaður Vísis og Fréttablaðsins tók á vettvangi, þó við litlar undirtektir öryggisvarða í verslunarmiðstöðinni.

Hrafn Hauksson, húsvörður í verslunarmiðstöðinni, sagði í samtali við Vísi að Símon hefði ekki verið með leyfi fyrir gjörningnum og hefði verið fjarlægður vegna þess að hann hefði truflað gesti og gangandi.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×