Innlent

Gunnar Scheving sakfelldur fyrir að brjóta gegn þagnarskyldu

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Gunnar Scheving Thorsteinsson.
Gunnar Scheving Thorsteinsson. vísir/valli
Hæstiréttur hefur sakfellt lögreglumanninn Gunnar Scheving Thorsteinsson fyrir að brjóta gegn þagnarskyldu opinberra starfsmanna er hann miðlaði til upplýsingum til þriðja aðila sem leynt áttu að fara. Áður hafði Héraðsdómur Reykjavíkur sýknað Gunnar.

Í dómi Hæstaréttar, sem sjá má hér, segir meðal annars:

„Upplýsingar um nafn, aldur, búsetusvæði og andlegt ástand 13 ára gamals drengs, sem ákærði fékk vitneskju um í starfi sínu sem lögreglumaður og hann hafði afskipti af, sem og tilgreining ástæðu afskiptanna, falla ótvírætt undir upplýsingar um einkahagi manna sem eðlilegt og sanngjarnt er að fari leynt.

Upplýsingar þessar gaf ákærði af ásetningi og skiptir þá að öðru leyti engu hvort hann hafi um leið búið yfir ásetningi til að brjóta með þeirri háttsemi gagngert gegn 136. gr. almennra hegningarlaga. Samkvæmt framangreindu hefur ákærði með þeirri háttsemi sem greinir í öðrum lið ákæru brotið gegn því lagaákvæði og verður sakfelldur fyrir hana.“

Gunnari er hins vegar ekki gerð refsing í málinu og lítur dómurinn meðal annars til þess að hann hafi ekki hlotið dóm áður.

Upphaflega var Gunnar einnig ákærður fyrir að hafa flett upp nöfnum 45 kvenna í upplýsingakerfi lögreglunnar LÖKE, án þess að þær uppflettingar tengdust starfi hans.

Sá ákæruliður var hins vegar felldur niður þar sem ekki var talið sannað að Gunnar hefði gerst sekur um refsiverða háttsemi. Ekki var hægt að útiloka að uppflettingarnar í upplýsingakerfinu tengdust starfi hans.

Þá stóð eftir síðari ákæruliðurinn sem sneri að því sem Hæstiréttur hefur nú sakfellt Gunnar fyrir.

Í kjölfar sýknudóms héraðsdóms sneri Gunnar aftur til starfa hjá lögreglunni í mars síðastliðnum.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×