Menning

Náttúran og dýrin búa yfir hinni upprunalegu tónlist

Magnús Guðmundsson skrifar
David Rothenberg, tónlistarmaður og heimspekingur, heldur fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur í dag.
David Rothenberg, tónlistarmaður og heimspekingur, heldur fróðlegan og skemmtilegan fyrirlestur í dag. Visir/Stefán
David Rothenberg hefur löngum verið heillaður af tónlist náttúrunnar og þá einkum dýralífsins. Hann hefur djammað með áströlskum fuglum, útvarpað eigin klarinettutónlist neðansjávar fyrir hnúfubaka og þakið sig skordýrum til þess að deila með þeim hljóðheimi. David er nú staddur á Íslandi í tengslum við námskeiðið Dark Matters, þverfaglegt námskeið á vegum Lista­háskóla Íslands og Háskóla Íslands, þar sem hann mun kynna verk sín og hugmyndir á opnum fyrirlestri í Háskólabíó í dag kl. 16.30.

David segir að tónlist náttúrunnar hafi alla tíð höfðað ákaflega sterkt til hans. „Ég hef varið miklum tíma í að búa til tónlist með hljóðum náttúrunnar í bland við hljóð og tónlist dýraríkisins. Ég hef hljóðritað, samið og fullunnið tónlist með þessum hætti auk þess að skrifa bækur um þetta, gera kvikmyndir og sjónvarpsþætti í samvinnu við aðra og þar á meðal David Attenborough, þannig að ég lít á þetta sem heildstætt verkefni, að miðla þessum möguleikum. Stóra málið er að fá mannkynið til þess að auka skilning sinn á tónlist með því að kynnast því betur hvernig aðrar dýrategundir en við vinna með og nota tónlist frá degi til dags.“

Rætur tónlistarinnar

David segir að það hafi fyrst og fremst verið reynslan af því að vera úti í náttúrunni sem hafi vakið áhuga hans á hljóðum og tónlist náttúrunnar. „Þetta samlífi við náttúruna var stór hluti af mínum uppvexti. Ég hafði alltaf mikinn áhuga á náttúrunni, fór í göngur, gekk um skógana, fór í fjallgöngur og var alltaf að rannsaka náttúruna með einum eða öðrum hætti í bland við það að ég var að fást við tónlist. Það var því eðlilegt skref að ég færi að kanna betur hvernig þetta tvennt tengdist; náttúran og tónlistin. Ég held að upphafið að minni vinnu og mínum viðfangsefnum liggi einfaldlega í þessu og þegar ég komst á táningsaldurinn komst ég að því að það hafa örfáir aðrir tónlistarmenn verið að vinna með þetta sama viðfangsefni.

En það kom í raun alveg rosalega á óvart hversu fáir hafa verið að fást við þetta í gegnum tíðina. Það er í raun alveg furðulegt að það séu ekki þúsundir tónlistarmanna að vinna með tónlist náttúrunnar í bland við sína eigin tónlist því það er eitthvað sem er svo borðleggjandi og augljóst. vegna þess að þarna liggja rætur mennskrar tónlistar. Náttúran er uppsprettan. Það er endalaust til af ljósmyndurum sem fást við að mynda náttúruna á sama tíma og nánast enginn fæst við að hljóðrita og vinna með alla þessa fallegu tónlist sem hún hefur fram að færa.

Einstakur hljóðheimur

En ég held að þetta sé að breytast og þá einkum vegna þess hvernig það er að breytast hvernig við tengjum við hljóð. Hugmyndin að vinna með hljóð er orðin svo miklu auðveldari og aðgengilegri fyrir alla. Í dag eru alls konar hljóð á stafrænu formi orðin aðgengileg tónlistarfólki og mikið af þessum hljóðum er komið frá náttúrunni. Það merkilega er að eina landið í heiminum sem hefur verið kynnt með hljóði er Ísland. En tónlistarmenn geta nálgast hin náttúrulegu hljóð landsins og unnið með þau í sínum verkum. Þetta land er nefnilega fullt af afar áhugaverðum hljóðum og kannski kem ég aðeins inn á það í fyrirlestrinum mínum.

Stóra málið fyrir mér er að hugmyndir okkar um tónlist eru og hafa verið að breytast gríðarlega á undanförnum árum. Tónlist dýra og náttúru á borð við vatn, ís og hveri til að mynda á Íslandi er orðin aðgengilegri og þá er viðbúið að sífellt fleiri muni nýta sér þennan einstaka hljóðheim í sinni tónlist.“

Frelsið í djassinum

Djassinn er hin tónlistarlegu heimkynni Davids Rothenberg og hann segir að sú tónlistartegund hafi verið eðlilegt skref í þessari þróun. „Ég held að það hafi verið þessar eigindir djasstónlistar, að þar eru allar þessar ólíku tegundir tónlistar velkomnar. Djassistar geta unnið með alls konar tónlistarmönnum og það hentaði mér. Djassinn er opinn í eðli sínu, í mínum huga að minnsta kosti.

Ég spila svo á mitt klarinett og minn saxófón og vinn með þetta ásamt alls konar hljóðum úr náttúrunni. Málið er að það er svo mikið af dýrahljóðum og tónlist sem myndast í raun með sömu prinsippum og það hentar mér ákaflega vel.“

Vindur og snjór

Þetta er ekki fyrsta heimsókn Davids til Íslands en hann segir að það hafi þó liðið allt of langt á milli heimsókna. „Fyrsta ferðin mín til Íslands var reyndar líka í fyrsta sinn sem ég kom til Evrópu. Þetta var 1983 og ég var sendur hingað til þess að skrifa í ferðahandbók fyrir stúdenta. En ég féll fyrir norðrinu í þessari ferð og eftir þetta þá fór ég að verja talsvert miklum tíma hér og þar á Norðurlöndunum og ég var því mjög spenntur fyrir því að koma aftur.

Ég heyrði líka fullt af heillandi hljóðum strax og ég fór að ganga um bæinn og er strax byrjaður að taka upp hljóð. Gnauðið í vindinum og marrið snjónum en ég stefni svo að því að koma aftur þegar fer að vora og náttúran lifnar við. Það er mikið tilhlökkunarefni.“






Fleiri fréttir

Sjá meira


×