Innlent

Snjókoma bætist í langtímaspána fyrir jólin

Birgir Olgeirsson skrifar
Á Akureyri er einnig spáð snjókomu, frá Þorláksmessukvöldi, aðfaranótt aðfangadags og á aðfangadegi en spáð er heiðskíru veðri á jóladagsmorgun.
Á Akureyri er einnig spáð snjókomu, frá Þorláksmessukvöldi, aðfaranótt aðfangadags og á aðfangadegi en spáð er heiðskíru veðri á jóladagsmorgun. Vísir/Örlygur Hnefill
Veðurspáin fyrir næstu viku gerir ráð fyrir miklum lægðagangi og varhugaverðu veðri á köflum. Þeim sem ætla að ferðast á milli landshluta fyrir jól er bent á að fylgjast vel með framvindu veðurspáa og viðvarana.

Langtímaspáin á vef Veðurstofu Íslands nær til fimmtudagsins 22. desember en þá er spáð líkum á áframhaldandi suðvestanátt með éljum. Á miðvikudeginum 21. desember er spá hvassri suðvestanátt með éljum en úrkomulítið norðaustantil og frosti víðast hvar.

Á langtímaspá norska veðurvefsins Yr.no er helst að sjá þá breytingu að það muni snjóa víða á landinu á aðfangadegi og jóladegi.

Hún nær nú til jóladags þar sem kemur til að mynda fram að á jóladag verður 2 - 3 stiga frost og lítils háttar snjókoma í Reykjavík. Má búast við hægri sunnan átt en á aðfangadag hefur heldur dregið úr frosti ef marka má langtímaspá norska veðurvefsins fyrir Reykjavík. Hæglætisveður verður í Reykjavík dagana á undan.

Á Ísafirði er hins vegar smá breyting en spáð er snjókomu aðfaranótt aðfangadags og á aðfangadegi. Mun snjókoman vera viðvarandi fram að hádegi á jóladag á Ísafirði en frost verður á bilinu 1 til 4 stig. Búast má við norðanátt þessa daga ef marka má spá norska veðurvefsins.

Á Akureyri er einnig spáð snjókomu, frá Þorláksmessukvöldi, aðfaranótt aðfangadags og á aðfangadegi en spáð er heiðskíru veðri á jóladagsmorgun. Frost verður á bilinu 3 til 8 stig en búast má við norðan átt á aðfangadegi en hægri sunnan átt á jóladegi.

Á Egilsstöðum er spáð rigningu á aðfangadegi og allt að tveggja stiga hita. Búast má við að þessi rigning geti þá orðið að slyddu en spáð er hægri norðan átt sem mun svo snúa sér í sunnanátt á jóladegi, en það mun kólna fremur á þeim degi á Egilsstöðum samkvæmt spánni.

Á Selfossi er spáð snjókomu á aðfangadagsmorgni og aðfangadagskvöldi. Mun snjóa fram á jóladagsmorgun en mun draga úr þegar líður á daginn. Spáð er breytilegri átt og frosti, 2 - 6 stig.

Veðurhorfur á landinu næstu daga samkvæmt spá Veðurstofu Íslands:

Á morgun:

Suðaustan átt, 10 til 18 metrum á sekúndu, með rigningu síðdegis. Hvassast með suðvesturströndinni, en mun hægari norðaustantil og úrkomulítið fram eftir degi. Hiti 0 til 7 stig en víða næturfrost, einkum inn til landsins.

Á sunnudag:

Sunnanátt, 5-13 m/s, víða rigning og milt veður. Snýst í suðvestan 10-18 m/s vestantil síðdegis með skúrum, en éljum um kvöldið.

Á mánudag:

Allhvöss eða hvöss suðvestanátt, él og hiti kringum frostmark, en léttskýjað um landið norðaustanvert og víða vægt frost.

Á þriðjudag:

Útlit fyrir mjög hvassa suðlæga átt með rigningu einkum sunnantil og fremur milt, en skúrir síðdegis og kólnandi veður. Hiti 0 til 6 stig.

Á miðvikudag:

Hvöss suðvestanátt með éljum en úrkomulítið norðaustantil. Frystir víðast hvar.

Á fimmtudag:

Líklega áframhaldandi suðvestanátt með éljum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×