Tískuvörumerkið Don Cano sem naut mikilla vinsælda á Íslandi á níunda áratug síðustu aldar snýr aftur. Þessu greinir Jan Davidsson, fyrrverandi eigandi og aðalhönnuður Don Cano, frá í viðtali í tímaritinu HA.
„Nú er svo komið að ný lína er farin að taka á sig mynd,“ segir Jan.
Fram kemur að um tíma var æðið fyrir tískumerkinu svo yfirgengilegt að slegist var um flíkurnar þegar þær komu í verslanir. Eftir Don Cano-ævintýrið tók Jan við stöðu yfirhönnuðar hjá 66°Norður og seinna stofnaði hann Cintamani.
Fyrstu flíkurnar undir merkjum Don Cano birtust í verslunum árið 1981 og var rekstri hætt í lok níunda áratugarins.
Jan segir að í nýju línunni sé hann að tengja aftur við innri klæðskerann. Jakkarnir muni gefa tilfinningu um hið fullkomna snið.
Jan vill ekki segja nákvæmlega til um hvenær Don Cano birtist aftur. Ekki sé að vita nema nýja línan láti sjá sig á HönnunarMars 2017.
Don Cano snýr aftur
