Skoðun

Nýtt tækifæri til að efla lýðræðið

Antoni Abat i Ninet skrifar
Þegar kjörnir fulltrúar þjóðarinnar lögðust gegn stjórnarskrá sem samin var með aðkomu þjóðarinnar töldu sumir að nú væri öllu lokið, að sumir hlutir væru einfaldlega þess eðlis að ekki væri tækt að hleypa leikmönnum í einhvers konar tilraunastarfsemi með þá. Sannleikurinn er hins vegar sá, að vegna þess mikla pólitíska vægis sem stjórnarskrá hefur, verður ekki vikist undan því að þjóðin, raunverulegur valdhafi, samþykki hana.

Í lýðræðisríkjum á borð við Ísland er það þjóðin (íbúar Íslands) sem ræður því fyrst og síðast hvaða stjórnmálakerfi hún vill búa við, og eru örlög nýrrar stjórnarskrár ekki undantekning frá þeirri reglu. Lýðræðið er alltaf háð vilja þjóðar. Það virðist útilokað að læsa niður í glatkistu eða svæfa það sem þjóðarviljinn hefur úrskurðað, í landi þar sem svo góð reynsla fékkst af beinum afskiptum borgaranna við að móta valda- og efnahagskerfinu nýja stefnu.

Frá lagalegu og stjórnmálalegu sjónarhorni hefur sú opna og gegnsæja aðferð, sem notuð var á Íslandi við gerð nýrrar stjórnarskrár, vakið athygli fjölda sérfræðinga, háskóla og samfélaga, og nú er fylgst með möguleikanum á því að slíkri aðferð verði beitt á ný. Það er byltingarkennd aðferð að fela þjóðinni að semja stjórnarskrá, en vandinn er sá að ekki eru til hliðstæð dæmi til samanburðar. Það er líka afrek að láta ferlið ganga upp, og í framtíðinni verður litið til reynslu Íslands þegar unnið verður að stjórnarskrám um veröld víða.

Engum dettur í hug að þetta byltingarkennda ferli, sem Íslendingar áttu frumkvæðið að, verði auðvelt viðfangs, og fram undan eru ýmsir farartálmar, en þegar upp er staðið er það vilji fólksins sem skiptir sköpum í lýðræðisríki. Sé það vilji Íslendinga að leggja til grundvallar stjórnarskrárdrögin sem þjóðin samdi getur enginn mannlegur máttur komið í veg fyrir að svo verði. Fyrr eða síðar verður sá texti samþykktur.




Skoðun

Sjá meira


×