Íslenski boltinn

Góður dagur fyrir Nótt í gær

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Nótt Jónsdóttir.
Nótt Jónsdóttir. Mynd/fh.is
FH-konur voru í stuði í gær í fótboltanum þegar þær unnu 6-0 stórsigur á Þrótti í Lengjubikarnum en enginn var heitari en framherjinn Nótt Jónsdóttir.

Leikurinn fór fram í Egilshöllinni en strax á eftir mættust karlalið félaganna þar sem FH vann einnig sigur.

Nótt Jónsdóttir skoraði þrjú mörk í leiknum en hin mörkin skoruðu þær Margrét Sif Magnúsdóttir, Alda Ólafsdóttir og Melkorka Katrín Fl Pétursdóttir.

Nótt skoraði mörkin sín þrjú á aðeins sautján mínútna kafla í seinni hálfleik en það fyrsta kom á 51. mínútu en það síðasta á 68. mínútu.

Nótt Jónsdóttir hefur þar með skorað fjögur mörk í fyrstu tveimur leikjum FH-liðsins í Lengjubikarnum en hún tryggði liðinu 1-1 jafntefli á móti ÍA í Akraneshöllinni rúmri viku fyrr.

Nótt er á nítjánda aldursári en hún á þrjá leiki að baki fyrir sextán ára landsliðið. Nótt skoraði 3 mörk í 8 leikjum á síðasta ári þegar FH-stelpurnar tryggðu sér sæti í Pepsi-deildinni.

FH-liðið er á toppnum í B-deild Lengjubikarsins með sín fjögur stig en bæði Valur og Afturelding, sem koma í næstu sætum með þrjú stig, eiga leik inni á FH-stelpurnar.  Afturelding vann 3-0 sigur á KR í fyrsta leik en Valskonur unnu 4-1 sigur á ÍA.

Næsti leikur FH-liðsins er ekki fyrr fimmtudaginn 7. apríl þar sem liðið mætir KR. Lokaleikirnir eru síðan á móti Aftureldingu og Val.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×