Skoðun

Hús íslenskunnar á Melunum

Guðrún Nordal skrifar
Fyrir örfáum dögum var hér í blaðinu greint frá hugmyndum um höfðingjasetur í landi Helgafells í Mosfellsbæ þar sem svokallaðri gullöld Íslendinga yrðu gerð skil. Vísað er í bréf Halldórs Þorgeirssonar og Úlfs Hróbjartssonar til bæjarstjórnar Mosfellsbæjar þess efnis að það sé „helst í Árnastofnun og Þjóðmenningarhúsi sem hægt er að kynna sér þessa þætti en hvort tveggja er mjög þurr og þröng nálgun á þetta blómaskeið Íslands sögunnar“.

Um leið og ég fagna þeim félögum í hóp þeirra sem vilja gera íslenska miðaldamenningu sýnilegri, verð ég að leiðrétta bagalegan misskilning er fram kemur í bréfi þeirra til Mosfellinga.

Í Árnastofnun er engin aðstaða til sýningar á handritum þjóðarinnar eða íslenskri miðaldamenningu, og því er í bréfinu vísað í sýningar og nálgun sem ekki eru til. Með fréttinni er mynd af heimsókn Danadrottningar í tilefni af 350 ára afmæli Árna Magnússonar árið 2013. Hún skoðar þar sýningu sem var um árabil í Þjóðmenningarhúsi, nú Safnahúsi, en var lokað síðar það ár.

Þegar handritunum var búinn staður í Árnagarði fyrir 45 árum var ekki gert ráð fyrir sýningaraðstöðu, enda á þeim tíma lögð höfuðáhersla á aðstöðu til varðveislu og rannsókna. Ný umgjörð um handritin og önnur söfn stofnunarinnar, þá miklu rannsóknarstarfsemi og kennslu sem er innan Árnastofnunar og Háskóla Íslands í íslenskum bókmenntum og tungu, var því orðin löngu tímabær þegar Háskólinn og stjórnvöld hófu framkvæmdir við nýtt Hús íslenskunnar.

Þær framkvæmdir hafa því miður legið niðri í þrjú ár. Nú er ekki hægt að sjá Konungsbók eddukvæða og helstu handrit þjóðarinnar á sýningu í Reykjavík, bókmenntaborg UNESCO. Hvernig þætti okkur að koma til Aþenu og fá ekki að sjá Akrópólis? Í nýrri byggingu verður frábært sýningarrými fyrir handritin og breytilegar sýningar, og glæsileg aðstaða fyrir gesti og gangandi. Tapaður tími þar til Húsið rís er sama og glötuð tækifæri fyrir íslenska menningu og íslenska tungu – og auðvitað fyrir alla þá sem missa af því að upplifa handritin sjálf.




Skoðun

Skoðun

BRCA

Elín Íris Fanndal Jónasdóttir skrifar

Sjá meira


×