Erlent

Liðsmenn ISIS flýja sýrlensku borgina Manbij

Atli Ísleifsson skrifar
Uppreisnarhóparnir sátu um Manbij í 73 daga.
Uppreisnarhóparnir sátu um Manbij í 73 daga. Vísir/afp
Uppreisnarhópar Kúrda og araba segjast nú ráða yfir sýrlenska bænum Manbij í norðurhluta Sýrlands eftir að hafa haft betur gegn liðsmönnum ISIS eftir margra vikna umsátur.

Uppreisnarhóparnir segja að með því að ná valdi á bænum hafi tekist að stöðva mikilvæga flótta- og birgðaleið liðsmanna ISIS til og frá Evrópu, en uppreisnarhóparnir hafa notið liðsinnis Bandaríkjahers í baráttunni.

BBC greinir frá því að uppreisnarhóparnir hafi setið um bæinn og átt þar í átökum við liðsmenn ISIS síðastliðna 73 daga. Segjast uppreisnarhóparnir hafa frelsað um tvö þúsund almenna borgara sem hafi verið notaðir sem mennskir skildir á síðasta degi átakanna.

ISIS náði völdum í bænum Manbij, nærri tyrknesku landamærunum, fyrir tveimur árum, en bærinn er mikilvæg samgöngumiðstöð þar sem vegir liggja bæði til höfuðvígis ISIS, Raqqa, og til stórborgarinnar Aleppo þar sem harðir bardagar hafa staðið síðustu vikur og mánuði.

Mannréttindasamtökin Syrian Observatory for Human Rights staðfesta að fjöldi liðsmanna ISIS hafi flúið borgina. Sést hafi til um fimm hundruð bíla með ISIS-liða og vopnabirgðir um borð, sem hafi verið ekið í norðaustur frá Manbij í átt að bænum Jarablus á tyrknesku landamærunum þar sem ISIS-liðar ráða enn lögum og lofum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×