Handbolti

Svíar enn stigalausir

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Johan Jakobsen lendir í hrömmunum á varnarmönnum Slóveníu.
Johan Jakobsen lendir í hrömmunum á varnarmönnum Slóveníu. vísir/getty
Svíar eru í vondum málum í handboltakeppninni á Ólympíuleikunum í Ríó eftir fimm marka tap, 29-24, fyrir Slóveníu í gær.

Svíar hafa tapað öllum þremur leikjum sínum í Ríó en silfurliðið frá síðustu Ólympíuleikum er í erfiðri stöðu fyrir síðustu tvo leikina í B-riðli.

Slóvenum gengur hins vegar allt í haginn en þeir hafa unnið alla þrjá leiki sína til þessa.

Fyrri hálfleikurinn í leiknum í gær var jafn en Slóvenía leiddi með einu marki, 14-13, að honum loknum. Í seinni hálfleik tóku Slóvenar svo völdin, breyttu stöðunni úr 18-16 í 26-18 um miðbik hans og unnu að lokum með fimm mörkum, 29-24.

Simon Razgor og Blaz Janc voru markahæstir í liði Slóveníu með fimm mörk hvor. Gamli maðurinn Uros Zorman skoraði fjögur mörk og gaf þrjár stoðsendingar.

Jerry Tollbring skoraði sex mörk fyrir Svíþjóð sem mætir Póllandi í næsta leik sínum.

Í A-riðli vann Frakkland öruggan sigur á Argentínu, 31-24.

Frakkar, sem unnu Ólympíugull 2008 og 2012, eru með fullt hús stiga í A-riðli en Argentínumenn eru stigalausir.

Luc Abolo skoraði sjö mörk fyrir Frakka sem virka í toppformi. Ólympíumeistararnir voru með lygilega 82% skotnýtingu í leiknum í gær og allir útileikmenn liðsins nema tveir komust á blað.

Federico Fernandez var markahæstur í liði Argentínu með átta mörk.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×