Erlent

Fjórir látnir eftir ellefu sprengjuárásir í Tælandi

Hulda Hólmkelsdóttir skrifar
34 eru slasaðir og fjórir látnir eftir sprengingarnar.
34 eru slasaðir og fjórir látnir eftir sprengingarnar. Vísir/Getty
Minnst fjórir eru látnir og 34 slasaðir eftir ellefu sprengjuárásir í Tælandi. Tvær sprenginganna voru á vinsæla ferðamannastaði á eyjunni Phuket. Enginn hefur tekið ábyrgð á verknaðinum og ekki er vitað hvort árásinar séu tengdar. Fimm dagar eru síðan ný stjórnarskrá var samþykkt í landinu. Fyrstu sprengingarnar voru gerðar í gær og héldu áfram í morgun.

Samkvæmt lögregluyfirvöldum í Tælandi er ekkert sem bendir til þess að árásirnar séu tengdar alþjóðlegum hryðjuverkasamtökum. Þetta kemur fram á vef CNN.

„Þessar árásir eru frábrugðnar hefðbundnum hryðjuverkaárásum, þær líkjast meira skemmdarverkum á ákveðnum stöðum og héruðum," sagði Piyapan Pingmuang, starfandi talsmaður lögreglunnar í Tælandi á blaðamannafundi í dag.

Tæpt ár er frá sprengjuárás á Erawan hofið í Bangkok þar sem tuttugu manns létu lífið. Samkvæmt Pingmuang eru sprengingarnar ekki tengdar árásinni á Erawan hofið.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×