Viðskipti innlent

Hagnaður Fabrikkunnar dregst saman

Ingvar Haraldsson skrifar
Sigmar Vilhjálmsson, Skúli Gunnar Sigfússon, Snorri Marteinsson og Jóhannes Ásbjörnsson, eigendur Hamborgarafabrikkunnar.
Sigmar Vilhjálmsson, Skúli Gunnar Sigfússon, Snorri Marteinsson og Jóhannes Ásbjörnsson, eigendur Hamborgarafabrikkunnar. fréttablaðið/stefán
Hagnaður Nautafélagsins, sem heldur utan um rekstur Hamborgarafabrikkunnar, dróst saman um 62 prósent á síðasta ári og nam 8,7 milljónum króna miðað við 23 milljóna króna hagnað árið 2014.

Rekstrarhagnaður nam 11,7 milljónum króna en var 17,4 milljónir króna árið 2014.

Eignir félagsins nema 203,7 milljónum króna. Þar af er helmingurinn falinn í innréttingum, áhöldum og tækjum.

Eigið fé félagsins nemur 63 milljónum króna og skuldir 140,7 milljónum króna.

Launagreiðslur námu 289 milljónum og hækkuðu um 41 milljón króna milli ára.

Stöðugildi voru að meðaltali 53 og fjölgaði þeim um fimm milli ára.

Hamborgarafabrikkan rekur þrjá veitingastaði; í Kringlunni, á Höfðatorgi og á Hótel Kea á Akureyri. Auk þess býður fyrirtækið upp á veisluþjónustu og rekur Fabrikkugrillbílinn.

Nautafélagið er í eigu Flugkýr ehf. sem er í eigu Sigmars Vilhjálmssonar, Jóhannesar Ásbjörnssonar, Skúla Gunnars Sigfússonar, sem jafnan er kenndur við Subway, og Snorra Marteinssonar, framkvæmdastjóra Hamborgarafabrikkunnar, í gegnum hlutafélög í þeirra eigu. 

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu






Fleiri fréttir

Sjá meira


×