Lagið umrædda heitir I Took a Pill in Ibiza og fjallar um fallvaltleika frægðarinnar en fyrstu línur lagsins segja frá því þegar Posner tók pillu á eyjunni Ibiza til að ganga í augun á sænska plötusnúðinum Avicii.
Sú útgáfa lagsins sem hefur slegið í gegn víða um heim er endurgerð norska rafdanstónlistardúettsins SeeB.
Á meðan sænski plötusnúðurinn tryllti lýðinn gat Posner látið eins og almennur tónleikagestur því enginn þekkti hann þar, nema einn ungur maður sem bauð honum umrædda pillu. „Ég tók hana og það var frábært. Þegar rann af mér leið mér eins og ég væri tíu árum eldri," sagði Posner sjálfur um þessa reynslu.
Posner sló fyrst í gegn 22 ára árið 2010 þegar hann gaf út lagið Cooler Than Me sem náði ans ofarlega á vinsældarlista það ár. Lögin sem voru gefin út í kjölfarið fengu einhverja athygli en ekki í nánd eins mikla.
Vulture bendir á að hann hafi í raun stefnt á sömu braut og Dan Wilson og Linda Perry, tónlistarmenn sem náðu vinsældum en hurfu síðan á bak við tjöldin þar sem þeir héldu áfram að semja geysivinsæl lög en fyrir aðra tónlistarmenn. Dan Wilson var í hljómsveitinni Semisonic sem átti risasmellinn Closing Time árið 1998. Hann hefur unnið með fjölda listamanna og þar á meðal Adele, en þau sömdu saman lagið Someone Like You.

Í laginu lýsir hann baráttu sinni við þunglyndi en segist vera á betri stað í dag. Hættur að drekka og í betri tengslum við tilfinningarnar. Hann segist ungur að árum hafa dreymt og frægð og frama en komst síðar að því að peningar og frægð losa þig ekki undan neikvæðum hugsunum.
„Ég varð fyrir nokkurskonar uppljómun. Það er ekki til neitt stig af frægð eða frama sem lætur vanlíðan hverfa. Þegar ég var krakki sögðu foreldrar mínir við mig að ekki væri hægt að kaupa hamingju með peningum. Ég hugsaði á þeim tíma að þau hefðu hreinlega ekki þénað nógu mikið. Ég þurfti hins vegar að komast að þessu sjálfur. Ég fór því af stað í leit að viðurkenningu, frægð og peningum og var bara nokkuð góður í því og náði því frekar ungur. En það losaði mig ekki við vanlíðanina.”
Næsta plata er væntanleg frá honum 6. maí næstkomandi en á henni verða báðar útgáfurnar af I Took a Pill in Ibiza. Lesa má viðtal Vulture við hann í heild hér.