Erlent

Zika-veiran: „Höfum fleiri spurningar en svör“

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Brasilískar mæður með börn sín sem fæðst hafa með dverghöfuð.
Brasilískar mæður með börn sín sem fæðst hafa með dverghöfuð. vísir/getty
„Zika-veiran er ný fyrir okkur og við höfum fleiri spurningar en svör akkúrat núna. Þá er hópur vísindamanna við rannsóknir í Brasilíu sem eru að reyna að skilja allt sem þeir geta í tengslum við þennan sjúkdóm. Við vissum að zika-veiran væri til en enginn hafði fengist við hana þar sem hennar hefur hingað til aðeins gætt í Afríku.“

Þetta segir Margareth Capurro, prófessor við háskólann í Sao Paolo í Brasilíu, í samtali við sjónvarpsstöðina Al Jazeera en ítarlega er fjallað um veiruna í þættinum Talk to Al Jazeera á vef stöðvarinnar í dag.

Zika-veiran hefur breiðst út um heiminn síðustu vikur en í Brasilíu er verið að kanna hvort að tengsl séu á milli veirunnar og fæðingargalla sem kallast dverghöfuð.

Mun fleiri börn með dverghöfuð hafa fæðst undanfarið í Brasilíu en venja er en veiran berst með moskítóflugum. Þungaðar konur hafa því verið varaðar við því að ferðast til Suður-Ameríku þar sem veiran hefur breiðst út um álfuna.

Dverghöfuð, sem er ólæknandi, veldur því að heili barna þroskast ekki sem skyldi og hefur því áhrif á þroska þeirra og heilsu. Mörg barnanna sem fæðst hafa með dverghöfuð í Brasilíu koma úr fátækum fjölskyldum sem eiga erfitt með að kaupa nauðsynleg lyf. Ríkisstjórnin hefur lofað að aðstoða fjölskyldurnar fjárhagslega en betur má ef duga skal.

„Lyfin eru dýr og ríkisstjórnin er ekki að gera neitt. Dóttir mín þarf að taka mörg lyf svo ég hef hætt að borga reikningana til að hafa efni á þeim,“ segir Nadja Bezeera, móðir stúlku með dverghöfuð.

Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin hefur lýst yfir neyðarástandi á heimsvísu vegna zika-veirunnar. Hún dreifir sér hratt og víða og óttast er að allt að fjórar milljónir manna muni smitast af henni. Biðin eftir bóluefni kann að verða nokkur enda tekur það tíma að fá slík efni samþykkt frá þar tilbærum yfirvöldum.


Tengdar fréttir

Hvað er Zika?

Neyðarástandi hefur verið lýst yfir vegna Zika-veirunnar. En hvað er Zika og hvaða afleiðingar getur hún haft?




Fleiri fréttir

Sjá meira


×