Erlent

Eiginkonan og ástmaður hennar grunuð um að hafa myrt sendiherrann

Samúel Karl Ólason skrifar
Brunnið lík Amiridis fannst í bíl hans undir hraðbraut nærri húsi þeirra þar sem kveikt hafði verið í honum.
Brunnið lík Amiridis fannst í bíl hans undir hraðbraut nærri húsi þeirra þar sem kveikt hafði verið í honum. Vísir/AFP
Lögreglan í Ríó í Brasilíu grunar að eiginkona sendiherra Grikklands í Brasilíu og ástmaður hennar, sem er lögregluþjónn, hafi myrt sendiherrann. Kyriakos Amiridis hafði verið týndur frá því á mánudagskvöldið, en kona hans tilkynnti lögreglu að hann væri horfinn á miðvikudaginn. Búið er að finna lík sendiherrans.

Samkvæmt fjölmiðlum í Brasilíu grunar rannsakendur að Sergio Moreira, ástmaður Francoise, brasilískrar eiginkonu sendiherrans, hafi skipulagt eða framið morðið og það hafi farið fram á heimili þeirra hjóna í norðurhluta borgarinnar.

Bæði Francoise og Moreira eru í haldi lögreglu, auk tveggja annarra sem eru með stöðu grunaðra.

Samkvæmt Reuters hefur komið í ljós að blóð hafi fundist í sófa á heimili þeirra, en brunnið lík Amiridis fannst í bíl hans undir hraðbraut nærri húsi þeirra þar sem kveikt hafði verið í honum.

Hverfið sem líkið fannst í er stjórnað af öflugum glæpasamtökum sem að mestu eru skipuð af fyrrverandi lögregluþjónum og slökkviliðsmönnum. Glæpatíðni hefur farið hækkandi í borginni sem á í miklum skuldavanda.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×