Innlent

Skilaboðin eru skýr frá Gráa hernum: Yngri eldri borgarar geta alveg unnið!

Birgir Olgeirsson skrifar
Stofnmeðlimir Grá hersins.
Stofnmeðlimir Grá hersins. Vísir/Rut
Grái herinn, baráttuhópur innan Félags eldri borgara í Reykjavík og nágrenni, hefur verið stofnaður en verkefni hans verður að leita nýrra verkefna til að vekja athygli á kjörum eldra fólks og stuðla að hugarfarsbreytingu þegar kemur að málefnum þeirra sem eldri eru.

„Það má segja að eldri borgarar séu tveir hópar, það eru eldri eldri borgarar og svo yngri eldri borgarar. Þetta eru tveir stórir hópar og þessi yngri hópur, hann getur alveg unnið. Hann er ekkert farlama gamalmenni,“ segir Helgi Pétursson, stjórnarmaður í Félagi eldri borgara og einn af meðlimum Gráa hersins.

Hann segir hópinn vilja fá fram skilning í samfélaginu á því hversu mikil sóun það er að henda vinnufærum eldri borgurum út af vinnumarkaði. Þetta sé úrlausnarefni sem þurfi að ráðast í nú þegar og ekki gangi að fækka þeim sem standa undir hverjum og einum.

Í tilkynningu frá hernum kemur fram að fólki sem er 65 ára og eldri mun fjölga um 60 prósent fram til ársins 2030. Hópurinn telur í dag rúmlega 44 þúsund manns en verður orðinn rúmlega 71 þúsund eftir 14 ár.

„Það er í samræmi við þá þróun að fólk lifir lengur, við betri heilsu og er vinnufært mun lengur en áður var. Þá bregður svo við að vinnumarkaðurinn hafnar oft eldra fólki. Margir sem einhverra hluta vegna missa starfið þegar sextugsafmælið nálgast, greina frá því að þeir eigi mjög erfitt með að fá aftur starf og sumir sitja uppi atvinnulausir. 

Það er skoðun Gráa hersins að þarna fari mikill mannauður forgörðum. Aldursfordómar birtast í því að það er oft ekki hlustað á eldra fólk. Það þykir jafnvel ekki gjaldgengt í samfélaginu eða á vinnumarkaði. Stundum er talað niður til eldra fólks, eða því er sýndur beinn dónaskapur. En áhugaleysi og afskiptaleysi um málefni þessa fólks er algengast. Fjárráðin eru tekin af elstu borgurum þessa lands á hjúkrunarheimilum, sem er bæði lögbrot og mannréttindabrot,“ segir í tilkynningunni frá Gráa hernum en hægt er að skoða Facebook-síðu hans hér. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×