Þetta virðist vera sagan endalausa, deilurnar um hvort Vestfjarðavegur um Gufudalsveit verði lagður um Teigsskóg. Þegar vegamálaráðherra síðustu ríkisstjórnar, Ögmundur Jónasson, sagði nei strunsuðu Vestfirðingar út á mótmælafundi á Patreksfirði.

„Það er nýbúið að senda fyrstu drög að nýrri skýrslu til Skipulagsstofnunar til skoðunar. Við erum að vonast til þess að það verði í sumar sem að því formlega ferli lýkur, vonandi með jákvæðri niðurstöðu. Ef allt gengur eftir, sem við höfum verið að vonast eftir, þá væri hægt að fara af stað með það verkefni í framkvæmdum strax næsta vor,” segir Hreinn Haraldsson vegamálastjóri.

„Þannig að það er mun minna rask á skóginum, eða kjarrinu, núna heldur en í eldri línum. Að öðru leyti verður bara fylgt þeim línum yfir firðina sem áður var búið að hanna og undirbúa.”
En í ljósi tíu ára deilna um Teigsskóg, er líklegt að tillagan nái núna í gegn?
„Ég hef trú á því, já. Það þarf náttúrlega fyrst þetta umhverfismatsferli og síðan þarf framkvæmdaleyfi sveitarstjórnar, sem ég held að verði nú ekki torsótt. Síðan þarf náttúrlega líka að ræða við landeigendur og fara í gegnum það ferli allt saman. En ég hef nú trú á því að þetta gangi upp, eins og við höfum verið að vonast til undanfarin misseri , og við getum farið að byrja þarna framkvæmdir á næsta ári.”

„Um svipað leyti eða jafnvel fyrr en Dýrafjarðargöngin opna, 2019 eða 2020, eitthvað svoleiðis. Þetta er stórverk,” segir vegamálastjóri um það hvenær hann búist við að nýi vegurinn verði tilbúinn.