Handbolti

Gamlar landsliðskempur mæta á Nesið í kvöld

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Logi Geirsson og Einar Örn Jónsson rífa fram skóna í kvöld.
Logi Geirsson og Einar Örn Jónsson rífa fram skóna í kvöld. vísir/hari
Logi Geirsson, Þórir Ólafsson og Bjarki Sigurðsson verða á meðal leikmanna í liði Þróttar frá Vogum í kvöld er liðið spilar við Gróttu í bikarkeppni HSÍ, Coca Cola-bikarnum.

Þróttarar hafa í gegnum árin mætt með skemmtilegt lið til leiks í bikarkeppninni þar sem uppistaðan hefur verið gamlar kempur. Óhætt er að segja að liðið hefur sjaldan eða aldrei verið betur mannað en nú.

Í markinu verður fyrrum landsliðsmarkvörðurinn Birkir Ívar Guðmundsson. Hornamenn verða Þórir Ólafsson, Einar Örn Jónsson og Stefán Baldvin Stefánsson.

Í hópi útileikmanna eru menn eins og Logi Geirsson, Heimir Örn Árnason, Sigurður Eggertsson, Hjalti Pálmason, Halldór Ingólfsson og Bjarki Sigurðsson. Engar smá kanónur.

Á línunni verður Haraldur Þorvarðarson og þeir Guðlaugur Arnarsson og Sigurgeir Árni Ægisson munu svo binda vörnina saman. Svo er aldrei að vita nema einhverjar fleiri kempur eigi eftir að mæta til leiks.

Þjálfari er svo enginn annar en Patrekur Jóhannesson, landsliðsþjálfari Austurríkis.

Það er ljóst að Olís-deildarlið Gróttu mun þurfa að hafa fyrir hlutunum gegn þessum jöxlum. Í gær lenti topplið Aftureldingar í bullandi veseni gegn 1. deildarliði Þróttar frá Reykjavík. Afturelding vann að lokum eins marks sigur.

Leikurinn hefst klukkan 19.30 í Hertz-höllinni út á Nesi. Klukkan 20.00 mætast svo Víkingur og KR í Víkinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×