Erlent

Geislavirk efni undir bráðnandi ísnum

Guðsteinn Bjarnason skrifar
Grænlendingur virðir fyrir sér mannvirki við bandarísku herstöðina í Thule.
Grænlendingur virðir fyrir sér mannvirki við bandarísku herstöðina í Thule. Nordicphotos/AFP
Skammt frá bandarísku Thule-herstöðinni á norðvestanverðu Grænlandi er önnur herstöð, sem hét Camp Century og var einnig bandarísk, en var yfirgefin árið 1967.

Bandaríkjamenn skildu þar eftir geislavirkan úrgang og búnað af ýmsu tagi, sem þeir héldu að myndi liggja þar grafinn í ísnum til eilífðarnóns, hættulaus með öllu.

Hlýnun jarðar gæti hins vegar orðið til þess að ísinn bráðnaði ofan af þessum úrgangi og geislamengaða búnaði í Camp Century herstöðinni.

Búast má við að þetta verði að veruleika eftir nokkurn tíma, líklega eftir um það bil 75 ár samkvæmt niðurstöðum rannsókna sem vísindamenn við York-háskóla í Kanada hafa birt.

Þarna í ísnum er geislavirkur úrgangur, kæliefni, olía og fleira af óumhverfisvænum efnum sem gætu eyðilagt út frá sér, bráðni ísinn ofan af.

Á vefsíðum kanadíska dagblaðsins The Humboldt Journal er rætt við William Colgan, sem stjórnaði rannsókninni. Hann segir að umhverfisáhrifin af þessu ættu reyndar ekki að verða mjög afgerandi. Hins vegar megi búast við því að pólitísk áhrif yrðu nokkur: „NATO-ríkin þurfa virkilega að sýna að þau hafi vel útfærðar áætlanir um lokanir þegar tekist er á við arfleifð yfirgefinna herstöðva,“ segir Colgan.

Vitneskjan um afdrif Camp Century herstöðvarinnar ætti að verða NATO hvatning til að leggja meiri vinnu í frágang yfirgefinna herstöðva á Grænlandi.

Herstöðin Camp Century var starfrækt á árunum 1959 til 1967, þegar kalda stríðið var í hámarki.

Þar var Bandaríkjaher með rannsóknarstöð þar sem rannsóknirnar beindust ekki síst að því hversu hentugt væri að geyma kjarnorkuvopn í ísnum.

Þarna störfuðu 200 manns í miklu kerfi ganga sem grafin höfðu verið niður í ísinn. Í göngunum voru vistarverur fólksins ásamt tilraunastöðvum og kjarnorkuofni sem knúði stöðina.

„Þegar þessu lauk lokaði herinn bara dyrunum og skildi allt eftir,“ segir Colgan í viðtalinu við Humboldt Journal. „Þeir tóku kjarnaofninn en skildu allt annað eftir. Byggingar, bifreiðar, birgðir, úrgang, allt saman. Þeir héldu að þetta myndi snjóa í kaf til eilífðar.“

Thule-herstöðin

Bandaríkjamenn hafa rekið Thule-herstöðina á norðvestanverðu Grænlandi síðan 1943.

Árið 1951 var þar lagður flugvöllur, þar sem áður stóð þorpið Pituffik, en íbúar þess voru reknir burt með aðstoð danskra yfirvalda og sendir yfir í nýtt þorp, sem fékk nafnið Qaanaaq og var reist í 130 kílómetra fjarlægð frá fyrri heimkynnum fólksins.

Árið 1968 hrapaði bandarísk sprengjuflugvél nálægt Thule-herstöðinni. Um borð voru fjórar vetnissprengjur. Töluverð geislamengun varð á svæðinu þótt sprengjurnar hafi ekki sprungið. Bandaríkjamenn og Danir unnu saman að því að hreinsa svæðið eftir því sem hægt var. Enn þykir nokkur hætta steðja þar að fólki.

Þessi frétt birtist upphaflega í Fréttablaðinu. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×