Erlent

Nýi Forrest Gump: Skoraði einelti á hólm með 401 maraþonhlaupi á jafnmörgum dögum

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Ben Smith ásamst nokkrum af fjölmörgum sem hétu á hann undanfarinn 401 dag.
Ben Smith ásamst nokkrum af fjölmörgum sem hétu á hann undanfarinn 401 dag.
Hann byrjaði að hlaupa fyrir þremur árum en í dag náði Ben Smith einstöku afreki. Hann lauk við maraþonhlaup númer 401 á jafnmörgum dögum.

Það var 1. september í fyrra sem Ben Smith lagði upp í sitt fyrsta maraþon. Hann hefur búið í húsbíl síðan og hlaupið maraþon hvern einasta dag. Skópörin urðu 22 og hann hefur brennt um 25 milljón kaloríum.

„Ég er í smá áfalli. Ég trúi varla að þetta sé búið,“ sagði Smith við BBC í dag. Hlaupin gengu ekki áfallalaust fyrir sig. Smith hafði glímt við bakmeiðsli og fékk svo kviðslit í sumar sem hélt honum frá hlaupum í tíu daga. Hann sneri þó aftur og náði að vinna upp kílómetrana sem töpuðust dagana tíu svo hann næði markmiðinu. 401 maraþonhlaup á jafnmörgum dögum.

Þá náði hann sömuleiðis markmiði sínu með því að safna 250 þúsund pundum, um 36 milljónum króna, sem renna til góðgerðarmála. Smith hefur upplýst að hann var lagður í einelti árum saman í grunnskóla sökum samkynhneigðar sinnar. Blés hann því til 401 áskorunarinnar sem hefur verið á margra vörum í Bretlandi undanfarið rúmt ár. Rennur ágóðinn til tveggja góðgerðarfélaga sem taka á einelti.

„Eitt af aðalmarkmiðum átaksins hefur verið að fá eins marga til liðs við það og hægt er og um leið skapa tækifæri fyrir börn, ungt fólk og fullorðna til að ræða erfið málefni á borð við einelti og kynferði.“

Tom Hanks lék Forrest Gump í samnefndri mynd.
Um níu þúsund manns hafa hlaupið hluta af leiðinni með Smith dagana 401 og mamma hans átti erfitt með að ræða við blaðamenn í dag enda afar stolt.

„Þetta er stórkostlegt. Mér fannst hann alltaf einstakur en…“ sagði frú Smith en innslag BBC má sjá hér að neðan.

Fjölmargir hafa líkt Smith við kvikmyndapersónuna Forrest Gump úr samnefndri bíómynd sem tók upp á því einn daginn að byrja að hlaupa. Áður en yfir lauk hafði hann hlaupið í á fjórða ár þangað til hann langaði það ekki lengur.





Fleiri fréttir

Sjá meira


×