Handbolti

Guðmundur Árni leikur með Haukum í vetur

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Guðmundur Árni er kominn aftur í Hauka.
Guðmundur Árni er kominn aftur í Hauka. vísir
Landsliðsmaðurinn Guðmundur Árni Ólafsson mun spila með Haukum í Olís-deild karla á næsta tímabili. Þetta staðfesti Gunnar Magnússon, þjálfari Hauka, í samtali við Vísi nú rétt í þessu.

Guðmundur gerir eins árs samning við Íslandsmeistarana sem ætla ekkert að gefa eftir á næsta tímabili.

Guðmundur Árni þekkir vel til hjá Haukum en hann lék með liðinu á árunum 2009-11. Guðmundur varð þrefaldur meistari með Haukum tímabilið 2009-10 en þá vann liðið deild, bikar og loks Íslandsmeistaratitilinn.

Guðmundur Árni hefur leikið í Danmörku frá 2011, fyrst með Bjerringbro/Silkeborg og svo með Mors-Thy.

Guðmundur Árni hefur verið viðloðandi íslenska landsliðið á undanförnum árum en þessi örvhenti hornamaður hefur leikið 13 A-landsleiki.

Guðmundur Árni er fjórði leikmaðurinn sem Haukar fá í sumar en áður voru Andri Heimir Friðriksson, Daníel Þór Ingason og Þórður Rafn Guðmundsson búnir að semja við félagið.

Haukar hafa hins vegar lánað markvörðinn Grétar Ara Guðjónsson í Selfoss og liðsfélagi hans í U-20 ára landsliðinu, Leonharð Þorgeir Harðarson, verður væntanlega lánaður til Gróttu í vetur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×