Lífið

Sigríður kærði sig ekkert um að sitja fyrir á mynd með Brad Pitt

Stefán Árni Pálsson skrifar
Sigga stillir sér upp í myndatöku Brad Pitts og félaga. Glöggir sjá að neðst á myndinni vinstra megin sést í skíðastaf og mun það vera skíðastafur Brad Pitts.
Sigga stillir sér upp í myndatöku Brad Pitts og félaga. Glöggir sjá að neðst á myndinni vinstra megin sést í skíðastaf og mun það vera skíðastafur Brad Pitts.
Sigríður Lóa Jónsdóttir, fararstjóri og sálfræðingur, lenti í einkennilegu atviki. Henni bauðst að sitja fyrir á mynd með Brad Pitt, einhverri helstu stórstjörnu samtímans, en hafnaði því. Viðstöddum og öðrum til mikillar furðu. Hún fékk hins vegar Brad Pitt til að taka af sér mynd.

Frá þessu segir í Fólki á fjöllum, nýrri bók eftir Reyni Traustason, blaðamann og fararstjóra í bráðskemmtilegri frásögn Siggu Lóu sjálfrar.

Þannig var árið 2002 var hún í skíðaferð í Sun Valley í Idaho. Hún var komin í hæstu brekkur, skíðaði í einveru og naut sýn þegar hún sá fjóra karlmenn. Eða svo gripið sé niður í bókina:

„Nei, takið bara mynd af mér einni “

„Ég ætlaði að skíða framhjá þeim en þeir kölluðu á mig. Ég renndi mér til þeirra og þeir vildu endilega að ég tæki mynd af sér. Mér fannst þetta vera truflun á náttúruupplifun minni og vildi helst ekki eyða tíma í að tala við þá. En þeir voru hinir vingjarnlegustu og kynntu sig. Nöfnin fóru inn um annað eyrað en út um hitt. Svo spjölluðum við saman dálitla stund.

Svo spyr einn þeirra hvort ég vilji ekki fá mynd af mér með þeim. Ég gaf ekkert út á það en hafnaði síðan boðinu.

„Nei, takið bara mynd af mér einni, “ sagði ég og rétti einum þeirra myndavélina mína. Maðurinn virtist vera alveg forviða. Hann benti svo á félaga sinn og spurði hvort ég vildi ekki vera með honum á mynd. Svo endurtók hann nafn hans, en það sagði mér ekkert. Ég þakkaði margfaldlega gott boð en ítrekaði að þeir mættu gjarnan taka mynd af mér einni í þessari stórkostlegu náttúru. Og það varð úr og maðurinn smellti af mér mynd. En það leyndi sér ekki að þeim fannst skrýtið að ég skyldi ekki vilja mynd af mér með þessum gæja.“

Ekki segja nokkrum manni frá þessu

Hún sagðist vera frá Íslandi og svo var að sjá á svip mannanna að það skýrði ýmislegt.

Sigga Lóa velti þessu fyrir sér og eftir að hafa lagt saman tvo og tvo komst hún að þeirri óhjákvæmilegu niðurstöðu að Brad þessi, væri Pitt, sá heimsþekkti kvikmyndaleikari.

Þegar hún sagði samferðarmönnum frá því að kvöldi dags tóku þeir andköf af undrun yfir því að hún skyldi láta sér það happ úr hendi sleppa að fá af sér mynd með stjörnunni. Og dóttir hennar, þá er hún frétti af þessu, bað móður sína að segja ekki nokkrum manni frá þessu.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×


Tarot dagsins

Dragðu spil og sjáðu hvaða spádóm það geymir.