Enski boltinn

Pardew segir að pressan sé á Gylfa og félögum í Swansea

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Gylfi Þór Sigurðsson vann sér inn vítaspyrnu um síðustu helgi og skoraði úr henni sjálfur.
Gylfi Þór Sigurðsson vann sér inn vítaspyrnu um síðustu helgi og skoraði úr henni sjálfur. Vísir/Getty
Alan Pardew, knattspyrnustjóri Crystal Palace, mætir með sína menn á Liberty Stadium í Swansea á laugardaginn þar sem tvö lið í basli berjast um gríðarlega mikilvæg stig.

Gylfi Þór Sigurðsson og félagar í Swansea City eru neðstir í ensku úrvalsdeildinni og hafa enn ekki unnið leik síðan Bandaríkjamaðurinn Bob Bradley settist í stjórastólinn hjá félaginu.

Bob Bradley hefur stýrt Swansea í fimm leikjum og hefur velska liðið hefur aðeins náð í tvö stig í þeim. Swansea gerði markalaust jafntefli við Watford og svo skoraði Gylfi mark liðsins í 1-1 jafntefli við Everton um síðustu helgi.

Þrátt fyrir þessi tvö stig af fimmtán mögulegum hafa Gylfi og félagar í Swansea City náð í fleiri stig á þessum tíma en Crystal Palace. Palace-menn hafa nefnilega tapað fimm leikjum í röð.

„Það er erfitt að meta stöðu Swansea eins og er. Þeir eru sem dæmi tíu breytingar í síðustu viku og náðu frábærum úrslitum á útivelli á móti Everton," sagði Alan Pardew á blaðamannafundi fyrir leikinn.

„Við erum ekkert vissir um það hvernig liði þeir munu stilla upp. Þeir eru á heimavelli og miðað við okkar slaka form þá ætti pressan að vera á þeim í þessum leik,“ sagði Pardew.

Crystal Palace er eins og er í sextánda sæti ensku úrvalsdeildarinnar fimm stigum og fjórum sætum á undan Swansea.

„Þetta hefur verið mjög erfið byrjun hjá þeim en þeir eru með nokkra frábæra leikmenn. Þeir eru með leikmenn sem geta komið þeim úr þeirri stöðu sem þeir eru í núna," sagði Alan Pardew.

Alan Pardew fór síðan að tala um knattspyrnustjóra Manchester City þegar hann var spurður út í þá ákvörðun Swansea að ráða Bandaríkjamanninn Bob Bradley.

„Sjáið til. Pep Guardiola var með enga reynslu af ensku úrvalsdeildinni þegar hann tók við City og það talaði enginn um það. Hann (Bradley) var búinn að vinna sér inn fyrir þessu tækifæri," sagði Pardew.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×