Innlent

Gífurlegur fögnuður braust út þegar Valdimar kom í mark

Birgir Örn Steinarsson skrifar
Valdimar hljóp síðasta spölinn og var vel fagnað.
Valdimar hljóp síðasta spölinn og var vel fagnað. Vísir/Hanna
Valdimar Guðmundsson tónlistarmaður er kominn í mark eftir að hafa farið 10 kílómetra í Reykjavíkurmaraþoninu í morgun. Gífurlegur fögnuður var í Lækjargötu þegar söngvarinn fór yfir lokalínuna.

Vísir var með beina útsendingu alla leiðina en Valdimar lét sér nægja að labba lang stærsta hlutann en hann fékk í bakið fyrir nokkrum dögum. Þegar kom að því að klára skipti Valdimar yfir í næsta gír og hljóp síðasta hlutann.

Söngvarinn tók sjálfu af sér og stuðningsmönnum eftir að hann kom í mark.Vísir/Valdimar
Honum var gífurlega vel fagnað á leiðinni og brustu margir aðdáendur hans í söng á hliðarlínunni þegar hann fór fram hjá. Stuðningsmenn hans og fjölskylda tóku á móti honum sem og lúðrasveit sem spilaði tóna úr Rocky myndunum þegar hann mætti á staðinn. Það tók Valdimar rétt um tvo tíma að klára vegalengdina.

Valdimar hljóp fyrir Krabbameinsfélag Íslands og hægt var að heita á hann fyrir og á meðan á hlaupinu stóð. Hann safnaði um 671 þúsund krónum fyrir félagið með framtaki sínu. Því er ljóst að hér hefur verið bæði um gífurlegan sigur fyrir félagið og hann sjálfan að ræða.

Uppfært 12:18 - Myndbandið fjarlægt af Facebook

Hægt var að horfa á myndbandið af þátttöku Valdimars í Reykjavíkurmaraþoninu í heild sinni um leið og beinni útsendingu lauk. Stuttu seinna var myndbandið þó fjarlægt af ráðamönnum Facebook þar sem heyra mátti lagið Happy með Pharrell Williams einhvers staðar á þeim tveimur klukkustundum sem útsendingin varði.

Uppfært 12:43

Sérstök bón var send til Facebook um að setja myndbandið upp aftur og var það gert. Ferðalag Valdimars í Reykjavíkurmaraþoninu má því nú sjá hér fyrir neðan.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×