Enski boltinn

Walcott rifjaði upp gamalkunnugt fagn Bebeto

Smári Jökull Jónsson skrifar
Theo Walcott hefur átt tvo skemmtilega daga. Í gær varð hann faðir í annað sinn og í dag skoraði hann eitt marka Arsenal í 3-1 sigri á Bournemouth.

Walcott og unnusta hans Melanie eignuðust sinn annan son snemma í gærmorgun sem þau hafa nefnt Arlo en fyrir áttu þau soninn Finley sem er rúmlega tveggja ára.

Framherjinn knái var þó mættur á Emirates völlinn í dag þegar Arsenal tók á móti Bournemouth í mikilvægum leik í úrvalsdeildinni.

Walcott var í byrjunarliði Arsenal og skoraði annað mark þeirra í 3-1 sigri. Þegar hann skoraði tók hann gamalkunnugt fagn sem Brasilíumaðurinn Bebeto gerði frægt á heimsmeistaramótinu í Bandaríkjunum árið 1994.

Bebeto skoraði í leik gegn Hollendingum í 8-liða úrslitum á HM 1994 og fagnaði með því að vagga höndunum fram og til baka líkt og hann héldi á ungabarni en hann var þá nýorðinn faðir. Walcott fagnaði á svipaðan hátt í dag og staðfesti á Instagram-síðu sinni eftir leikinn að markið hefði verið tileinkað sonum hans.

Markið var sjötta mark framherjans snögga á tímabilinu en margir eru á því að Arsenal geti gert alvöru atlögu að enska meistaratitlinum á þessu tímabili og frammistaða Walcott gæti þar gert gæfumuninn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×