Enski boltinn

Sanchez með tvö í sigri Arsenal | Sjáðu mörkin

Arsenal heldur sig í námunda við toppliðin eftir 3-1 sigur á heimavelli gegn Bournemouth í ensku úrvalsdeildinni. Alexis Sanchez skoraði tvö mörk fyrir Arsenal.

Fyrir leikinn var Arsenal í 4.sætinu, sex stigum á eftir Chelsea sem situr á toppnum með 31 stig. Bournemouth var í 11.sæti og gat jafnað Watford að stigum í 8.sætinu með sigri.

Fyrsta mark dagsins leit dagsins ljós á 12.mínútu. Steve Cook átti þá skelfilega sendingu til baka á Adam Federici í markinu, Sanchez komst á milli og skoraði örugglega.

Gestirnir náðu hins vegar að jafna tíu mínútum síðar. Það gerði Callum Wilson úr vítaspyrnu eftir að Shkodran Mustafi braut af sér inni í vítateig.

Í upphafi síðari hálfleiks kom Theo Walcott Arsenal svo í 2-1 með skalla af markteig eftir sendingu frá Nacho Monreal. Skömmu síðar vildi Bournemouth fá aðra vítaspyrnu þegar Monreal fékk boltann í höndina inni í vítateig. Mike Jones dæmdi hins vegar ekkert, afar vafasöm ákvörðun.

Hinn magnaði Alexis Sanchez gulltryggði síðan sigur heimamanna með marki á 90.mínútu eftir sendingu frá varamanninum Oliver Giroud.

Arsenal er í 4.sætinu með 28 stig, tveimur stigum á eftir Liverpool og Manchester City sem eru í sætunum þar fyrir ofan. Chelsea eru efstir með 31 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×