Fyrsti snjór haustsins féll á Öxnadalsheiði í morgun. Fjöll gránuðu á Norðurlandi og einnig hefur snjóað við Vatnsskarð og Hálsa. Ekki er þó von á meiri snjó í vikunni samkvæmt Veðurstofu Íslands.
Þrátt fyrir að farið sé að hausta er veðrið búið að vera milt og gott miðað við árstíma. Þó hefur verið töluvert mikil bleyta.
Á spám Veðurstofunnar er ekki að sjá að von sé á snjó í vikunni, en veðurfræðingur segir að mögulega gæti kólnað um næstu helgi og þá sérstaklega norðan heiða. Þá gæti gránað meira í fjöllum þar.
Hins vegar er hinu ágætasta haustveðri spáð fram að því. Von er á alldjúpri lægð á miðvikudaginn og mun henni fylgja talsverð rigning. Á móti kemur að henni fylgja hlýindi. Þó er farið að hausta og Íslendingar gætu átt von á meiri snjó á næstu vikum.
Fyrsti snjórinn á Öxnadalsheiði
Samúel Karl Ólason skrifar
