Handbolti

Elías Már frábær í sigri Hauka

Anton Ingi Leifsson skrifar
Elías Már gerði sér lítið fyrir og skoraði ellefu mörk í dag.
Elías Már gerði sér lítið fyrir og skoraði ellefu mörk í dag. vísir/valli
Haukar eru með fjögura stiga forskot á toppi Olís-deildar karla í handbolti eftir fimm marka sigur á ÍBV, 29-24, í lokaleik 21. umferðar.

Haukarnir byrjuðu virkilega vel og voru komnir í 6-0 þegar gestirnir frá Vestmanneyjum náðu loksins að skora eftir tíu mínútna leik. Hægt og rólega komust gestirnir inn í leikinn, en Haukarnir leiddu í hálfleik 16-13.

Þeir náðu svo mest að minnka muninn í 18-17 þegar Grétar Þór Eyþórsson skoraði laglegt mark, en skömmu áður var Janus Daði Smárason sendur í sturtu með rautt spjald eftir að þrumað boltanum í andlitið á Stephen Nielsen úr víti.

Heimamenn létu þetta ekki á sig fá og hægt og rólega stigu þeir aftur á bensíngjöfina og sýndu afhverju þeir eru á toppi Olís-deildarinnar. Þeir náu mest sjö marka forskoti, en unnu að endingu fimm marka sigur, 29-24.

Elías Már Halldórsson var frábær í liði Hauka og skoraði ellefu mörk, en Adam Haukur Baumruk kom næstur með sex. Agnar Smári var markahæstur gestanna með níu mörk, en Grétar Þór Eyþórsson gerði fimm.

Haukarnir eru á toppi Olís-deildarinnar með fjögurra stiga forskot, en ÍBV er í fimmta sæti deildarinnar með 21 stig.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×