Handbolti

Arnór: Við áttum að loka þessu fyrr

Henry Birgir Gunnarsson skrifar
Arnór Atlason í baráttunni í kvöld.
Arnór Atlason í baráttunni í kvöld. vísir/valli
Arnór Atlason stýrði sóknarleik íslenska liðsins þegar það vann Noreg, 26-25, í æsispennandi leik á EM 2016 í handbolta í kvöld.

Arnór skoraði þrjú mörk úr fimm skotum og lagði upp sigurmarkið fyrir Guðjón Val Sigurðsson tólf sekúndum fyrir leikslok.

„Það var rosalega mikilvægt fyrir okkur að fá tvö stig í fyrsta leik. Ef eitthvað er þá áttum við að loka þessu fyrr,“ sagði Arnór við Vísi eftir leikinn.

Sjá einnig:Alexander: Ég er með gæsahúð

„Nú er það okkar að vinna Hvít-Rússana á sunnudaginn. Það kæmi okkur í góða stöðu fyrir restina af mótinu.“

Ísland var marki undir í hálfleik en í fyrri hálfleik var lítið að frétta í sóknarleiknum. „Í hálfleik töluðum við um að við vorum ekki að spila eins og við ætluðum. Við köstuðum boltum bara í ruslið og vorum að missa boltann,“ sagði Arnór.

„Það var bara okkar að halda okkar leik áfram. Við vissum að við myndum vinna Noreg ef við héldum okkar leik. Það vantaði bara aðeins upp á í sókninni en auðvitað áttum við að loka þessu fyrr.“

„Það voru alltaf stigin tvö sem myndu telja í dag sama hvernig spilamennskan væri. Nú er það í okkar höndum að gera þessi stig enn þá stærri og mikilvægari.“

Arnór klúðraði dauðafæri þegar íslenska liðið var tveimur mönnum færri en það varð til þess að Noregur komst aftur inn í leikinn.

„Það var frekar vond stund og því var gott að Bjöggi varði þetta lokaskot. Ég er búinn að þakka honum fyrir það,“ sagði Arnór og brosti breitt.

Eftir leikinn sungu stuðningsmenn íslenska liðsins með hetjunum sínum, eitthvað sem er orðin hefð á landsleikjum.

„Þetta kom á óvart og greinilega orðin mikil hefð. Það er gaman fyrir okkur gömlu mennina sem hafa verið í þessu svo oft að fá að taka þátt í þessu,“ sagði Arnór Atlason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×