Innlent

Samflokksmenn Ögmundar segja hann „verstu málpípu feðraveldisins“

Birta Svavarsdóttir skrifar
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna.
Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna. vísir/vilhelm
Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna segir það óásættanlegt að Ögmundur Jónasson, þingmaður Vinstri grænna, tali eins og hin versta málpípa feðraveldisins. Segir framkvæmdastjórn UVG ummæli Ögmundar vera þvert á stefnu flokksins, þar sem Vinstri græn séu hreyfing sem kenni sig við kvenréttindi og femínisma.

Er þess krafist að Ögmundur biðji hreyfinguna og allar konur í stjórnmálum afsökunar á ummælum sínum. Þetta kemur fram í ályktun Framkvæmdastjórnar UVG vegna ummæla Ögmundar Jónassonar í þættinum Vikulokin þann 20. ágúst. 

Vísir fjallaði um málið í gær, en í umræddum þætti sagði sakaði Ögmundur stjórnmálakonur um að nýta sér neikvætt umtal í sinn garð sér til upphafningar.

Sjá einnig: Ögmundur sakar stjórnmálakonur um að nýta sér neikvætt umtal til eigin upphafningar

Ályktun Ungra vinstri grænna má lesa í heild sinni hér fyrir neðan

„Framkvæmdastjórn Ungra vinstri grænna harmar orð Ögmundar Jónassonar í Vikulokunum á Rás 1 þann 20. ágúst. Þar sakaði Ögmundur stjórnmálakonur um að nýta sé neikvætt umtal sér til upphafningar og dró í efa þá erfiðleika sem fylgja því að vera kona í pólitík. Framkvæmdastjórn UVG telur það óásættanlegt að þingmaður Vinstrihreyfingarinnar - græns framboðs tali eins og hin versta málpípa feðraveldisins. VG er hreyfing sem kennir sig við kvenréttindi og femínisma, það er því alveg ljóst að þessi ummæli Ögmundar eru þvert á stefnu flokksins. Í stefnu VG segir að hreyfingin einsetji sér að uppræta allar birtingarmyndir kynjamisréttis.

Telur UVG því nauðsynlegt að forysta flokksins geri almenningi það ljóst að þessi ummæli séu þvert á stefnu flokksins, og reyni ekki að þegja þau af sér. Framkvæmdastjórn UVG krefst þess að Ögmundur Jónasson biðji hreyfinguna afsökunar á ummælum sínum sem og allar konur í stjórnmálum.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×