Lífið

Myndband sem kennir okkur hvernig er hægt að fara betur með mat

Guðrún Jóna Stefánsdóttir skrifar
Rakel Garðarsdóttir, forsvarsmaður samtakanna Vakandi.
Rakel Garðarsdóttir, forsvarsmaður samtakanna Vakandi. vísir/Valli
„Landvernd ásamt Vakandi hafa nú gefið út myndbönd þar sem Dóra Svavarsdóttir kokkur kennir okkur hvernig betur er hægt að fara með mat,“ segir Rakel Garðarsdóttir, forsvarsmaður samtakanna Vakandi, samtaka sem stuðla að vitundarvakningu um sóun matvæla.

Mikið er rætt um loftslagsbreytingar, gróðurhúsaáhrif og umhverfis­mál og hversu stór vandinn sé. Á sama tíma er lítið fjallað um hvað hægt er að gera til þess að sporna gegn þessari þróun. Rakel segir að við getum auðveldlega haft áhrif á þessa þróun, með því einfaldlega að hætta að henda mat.

„Sóun á mat leggur nefnilega mikið til losunar á gróðurhúsalofttegundum,“ segir hún, en samkvæmt skýrslu Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna er áætlað að um 3,3 milljarða gígatonna af losun koltvísýringsígilda í heiminum á ári megi rekja til matarsóunar, en þessi tala jafngildir helmingi þess sem Bandaríkin losa út árlega.

„Talið er að þriðjungur þess matar sem framleiddur er í heiminum endi í ruslinu. Með því að draga úr matarsóun spörum við peninga og orku og hættum að vinna gegn náttúrunni,“ segir hún og bætir við að Íslendingar séu þekktir fyrir að vinna mikið og á sama tíma séum við að sóa miklum fjármunum með því að henda mat, sem er fullkomlega ætur. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×