Fótbolti

Kolbeinn: Höfum allir beðið eftir þessu allan fótboltaferilinn

Kolbeinn Tumi Daðason. skrifar
vísir/böddi
„Þetta var frábært, að enda þetta svona fyrir mót. Að fá þessa góðu tilfinningu í kroppinn,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson sem skoraði fyrsta mark Ísland í kvöld gegn Liechtenstein.

Strákarnir okkar unnu öruggan 4-0 sigur á Liechteinstein í síðasta leik liðsins fyrir Evrópumótið en þeir halda til Frakklands á morgun.

„Þetta er frábær endir. Þú sérð hvernig þetta er, með Eið og Lars. Frábær stemning,“ sagði Kolbeinn en leikurinn var sá síðasti undir stjórn Lars Lagerbäck á íslenskri grundu. Var hann heiðraður í leikslok af áhorfendum og leikmönnum og áttu þeir Lars og Eiður Smári Guðjohnsen, sem kom inn á og skoraði, fallega stund að leik loknum.

Kolbeinn hefur glímt við meiðsli í hnénu en segist vera að verða betri. „Ég var stífur nú í endann en það er eðlilegt. Það var fínt að fá 80 mínútur. Ég fattaði það í byrjun að ég var svolítið ryðgaður en eftir því sem leið á leikinn var ég léttari á mér,“  sagði Kolbeinn.

Kolbeinn reiknar með því að geta byrjað leikinn gegn Portúgal eftir viku en taki þó áfram einn dag í einu. Hann ætli að sjá hvernig þessi leikur fari í sig en hann spilaði 80 mínútur í kvöld. Á morgun er brottför til Annecy. Kolbeini líður vel.

„Alveg frábærlega. Við höfum allir beðið eftir þessu allan okkar fótboltaferil,“ sagði Kolbeinn Sigþórsson.



 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×