Lífið

Kanye olli algjöru öngþveiti með óvæntum tónleikum sem ekkert varð af

Birgir Olgeirsson skrifar
Talið er að allt að fjögur þúsund manns hafi verið við Webster Hall þegar mest var.
Talið er að allt að fjögur þúsund manns hafi verið við Webster Hall þegar mest var. Vísir/EPA/Twitter
Þrátt fyrir að tónleikum rapparans Kanye West á Governors Ball-tónlistarhátíðinni á Randall-eyju í New York hafi verið frestað í gær náði rapparinn hins vegar að skapa algjöran glundroða í borginni með því efna til óvæntra næturtónleika sem ekkert varð úr.

Skipuleggjendur Governors Ball tóku þá ákvörðun að aflýsa öllum tónleikum á þriðja degi hátíðarinnar á sunnudag vegna veðurs. Kanye var einn af þeim sem átti að spila á sunnudeginum en tók þess í stað nokkur lög á tónleikum á vegum útvarpsstöðvarinnar Hot 97.

Skömmu síðar fóru fregnir að berast um samfélagsmiðla að Kanye væri búinn að plana tónleika á tónleikastaðnum Webster Hall á Manhattan klukkan tvö að staðartíma í síðastliðna nótt.



Aðdáendur hröðuðu sér að tónleikastaðnum og á örskömmum tíma myndaðist algjört öngþveiti á götum Manhattan. Talið er að allt rúmlega fjögur þúsund manns hafi verið á svæðinu þegar mest var á sagði Billboard að ástandið minnti um margt á óeirðir.

Eiginkona Kanye, Kim Kardashian, birti myndband á Snapchat-reikningi sínum þar sem Kanye sást reyna að ná í borgarstjórann sjálfan Bill de Blasio með það að markmiði að ná fram skyndilokunum á götum í grennd við Webster Hall svo aðdáendur hans gætu haldið partí þar utandyra.

Hann fékk því þó ekki framgengt og þegar klukkuna vantaði fimmtán mínútur í tvö í nótt á austurströnd Bandaríkjanna barst tilkynning frá Webster Hall þess efnis að næturtónleikar Kanye færu ekki fram.

New York Daily News greinir frá því að mannmergðin fyrir utan staðinn hafi gert það að verkum að eigendur staðarins tóku þá ákvörðun.

Þrátt fyrir þá tilkynningu ákváðu fjöldi þeirra sem mættu á staðinn að bíða í þeirri von að sjá goðið. Þeim varð að ósk sinni þegar West veifaði þeim úr bíl sínum. 






Fleiri fréttir

Sjá meira


×