Erlent

Árásin í München: Lokkaði til sín fórnarlömb á Facebook

Atli Ísleifsson skrifar
Fjölmargir hafa komið fyrir blómum og kertum fyrir utan verslunarmiðstöðina til að minnast hinna látnu.
Fjölmargir hafa komið fyrir blómum og kertum fyrir utan verslunarmiðstöðina til að minnast hinna látnu. Vísir/AFP
Þýski rannsóknarlögreglumaðurinn Robert Heimberger segir að svo virðist sem að árásarmaðurinn í München í gær hafi brotist inn á Facebook-reikning og sent skilaboð til fólks þar sem hann hvatti það til að mæta í verslunarmiðstöðina til að fá hluti gefins.

AP hefur eftir Heimberger að skilaboðin hafi verið send frá reikningi ungrar konu þar sem fólk var hvatt til að koma til verslunarmiðstöðvarinnar klukkan fjögur. „Ég skal gefa þér svolítið ef þú vilt, en ekkert of dýrt,“ sagði í skilaboðunum.

Heimberger segir að svo virðist sem skilaboðin hafi verið undirbúin af árásarmanninum og svo send út. Konan greindi frá því skömmu síðar að einhver hafi brostist inn á Facebook-reikning hennar.

Níu manns fórust í árásinni þar sem átján ára piltur skaut fólk í verslunarmiðstöðinni Olympia-Einkaufszentrum síðdegis í gær. Hann virðist hafa glímt við andleg veikindi og verið heltekinn af árásum í skólum. Hann fyrirfór sér skömmu eftir árásina.

Tvö fórnarlambanna voru fimmtán ára, þrír fjórtán ára, eitt sautján ára, eitt nítján ára, eitt tvítugt og einn 45 ára. Öll voru þau frá München.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×