Lífið

Gleðin yfir goslokum var einstök

Viktoría Hermannsdóttir skrifar
Elliði bæjarstjóri er spenntur fyrir hátíðinni um helgina.
Elliði bæjarstjóri er spenntur fyrir hátíðinni um helgina. Mynd/Óskar Pétur
Goslokin eru svo sérstök hátíð. Hún er öðruvísi kannski en flestar bæjarhátíðir vegna þess að þetta hvílir á svo einstökum atburði í sögu lands og þjóðar,“ segir Elliði Vignisson, bæjarstjóri í Vestmannaeyjum.

Um helgina fer fram Gosloka­hátíð í Vestmannaeyjum þar sem goslokanna 3. júlí 1973 er minnst. Goslokahátíðin hefur verið haldin árlega undanfarin ár og fagnað reglulega allt frá 1974.

„Þarna gaus bókstaflega undir fótunum á fólki. Um miðja nótt þurfti fólkið að flýja, eins og Bubbi söng um. Þetta var ekki gleðiviðburður í hugum Eyjamanna að þurfa að yfirgefa húsin og vita ekki hvort né hvenær þeir fengju aftur snúið. Gleðin við að gosið skyldi hafa svo hætt var mikil. Eyjamenn voru allt gosið, frá janúar til júlí, minnugir þess að Surtseyjargosið stóð svo árum skipti. Gleðin yfir goslokum var því svo einstök.“

Það ríkir mikil gleði á Gosloka­hátíðinni og fjölbreytt dagskrá er í boði fyrir alla aldurshópa. „Við slettum almennilega úr klaufunum að Eyjamannasið. Það eru 40-50 viðburðir á dagskrá. Þetta er gríðar­lega fjölbreytt, frá málverkasýningum yfir í tónleika Frikka Dórs og Bjartmars,“ segir Elliði. 

Yfir daginn er dagskrá víða um bæinn og á kvöldin eru haldnir tónleikar í Skipasandi þar sem fjölmargir listamenn koma fram. Hátíðin stendur fram á sunnudag og endar á að komið verður upp stórum skjá á Stakkagerðistúni þar sem leikur Íslands og Frakklands verður sýndur. Elliði segir óhætt að lofa miklu stuði.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×