Talsmaður Bandaríkjahers segir líklegt að túníski hryðjuverkamaðurinn, Noureddine Chouchane, hafi fallið í árásunum.
Chouchane hefur verið bendlaður við tvær mannskæðar hryðjuverkaárásir sem gerðar voru í Túnis á síðasta ári.
Í frétt BBC um málið segir að ISIS hafi verið virkir í Líbíu í rúmt ár og áætlar Bandaríkjaher að vígamenn samtakanna þar séu um sex þúsund talsins.
Ófremdarástand hefur ríkt í Líbíu síðustu ár, en einræðisherranum Muammar Gaddafi var steypt af stóli og hann drepinn árið 2011.
Bandarísku orrustuþoturnar tóku á loft frá breskri herstöð og hefur varnarmálaráðherra Bretlands, Michael Fallon, fagnað árásinni en tekur fram að breskar orrustuþotur hafi ekki verið notaðar.
Borgarstjóri Sabratha segir að 41 maður hafi fallið í árásinni, fyrst og fremst Túnismenn.
Ash Carter, varnarmálaráðherra Bandaríkjanna, segir að Bandaríkjaher muni halda loftárásum sínum í Líbíu áfram.