Illugi Gunnarsson mennta-og menningarmálaráðherra hefur ákveðið að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri vegna kennslu-og rannsóknarstarfsemi lögreglufræða.
Samkvæmt nýjum lögum sem samþykkt voru á þingi í maí á að færa menntun lögreglumanna á háskólastig og verður Lögregluskóli ríkisins lagður niður samhliða því.
Ríkiskaup auglýstu eftir háskólum sem höfðu áhuga á að taka námið að sér en skilafrestur þátttökutilkynninga var til 22. júlí. Gögn bárust frá Háskóla Íslands, Háskólanum á Akureyri, Háskólanum á Bifröst og Háskólanum í Reykjavík en umsókn Háskólans á Bifröst uppfyllti ekki hæfiskröfu um viðurkenningu til kennslu í sálfræði.
Ráðherra skipaði svo matsnefnd um lögreglunám á háskólastigi sem fékk það hlutverk að fara yfir innsend gögn.
„Niðurstaða matsnefndar var að þrír umsækjendur væru hæfir til að taka við kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða. Innbyrðis skipting stigafjölda þeirra umsækjenda sem uppfylltu lágmarksskilyrði var eftirfarandi:
Háskóli Íslands 128 stig af 135
Háskólinn á Akureyri 116 stig af 135
Háskólinn í Reykjavík 110 stig af 135
Ráðherra hefur ákveðið að ganga til samninga við Háskólann á Akureyri um kennslu- og rannsóknarstarfsemi á sviði lögreglufræða í samræmi við ákvæði 21. gr. laga um háskóla.
Að mati ráðherra uppfyllti Háskólinn á Akureyri mjög vel þær kröfur sem gerðar eru um gæði náms og aðbúnað til lögreglumenntunar. Þá telur ráðherra aðstæður við HA til þess fallnar að gera nemendum af landinu öllu kleift að leggja stund á lögreglunámi. Að auki er með þessari ákvörðun skotið styrkari stoðum undir fjölbreytta starfsemi Háskólans á Akureyri,“ segir í tilkynningu á vef mennta-og menningarmálaráðuneytisins.

