Lífið

Sterkasti maður heims: Hafþór þriðji fyrir lokadaginn

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Hafþór Júlíus Björnsson er í góðri stöðu fyrir lokadaginn í keppninni um titilinn sterkasti maður heims.
Hafþór Júlíus Björnsson er í góðri stöðu fyrir lokadaginn í keppninni um titilinn sterkasti maður heims. Vísir/Getty
Hafþór Júlíus Björnsson er í þriðja sæti eftir fyrri dag úrslita í keppninni um titilinn Sterkasti maður heims sem nú fer fram í Botswana. Hafþór er skammt undan efstu keppendum og í góðri stöðu fyrir lokaþrautirnar á morgun.

Í dag var keppt í þrjátíu metra rammaburði, sirkúslyftu og réttstöðulyftu en á morgun verður keppt í þeim greinum sem Hafþór er sterkari í, flugvéladrætti, ketilbjöllukasti og steinalyftum.

Andri Reyr Vignisson, sem staddur er með Hafþóri úti í Botswana segir að markmiðið fyrir daginn hafi alltaf verið að klára í efstu þremur sætunum og vera enn inn í keppninni fyrir seinni daginn. Hafþór sé sáttur með sjálfan sig með daginn og ætli sér að sigla þessu heim á morgun.

Bryan Shaw, ríkjandi sterkasti maður heims, er efstur eftir fyrri daginn en Laurence Shahlaei, sterkasti maður Evrópu, þurfti að draga sig úr leik vegna meiðsla og eru því níu keppendur eftir.

Hafþór hefur undanfarin ár verið afar nærri því að koma með titilinn heim aftur til Íslands en undanfarin fjögur ár hefur hann lent þrisvar í þriðja sæti og einu sinni í öðru sæti.


Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×